Sveinn á Múla sæmdur gullmerki UMFÍ
„Þetta var dásamlegt, við voru svo svakalega stolt,“ segir Ásgeir Sveinsson en faðir hans, Sveinn Jóhann Þórðarson, var í gær sæmdur gullmerki UMFÍ fyrir störf sín í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar. Sveinn fagnaði jafnframt 90 ára afmæli í gær. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, mætti í afmælisveisluna og færði Sveini gullmerkið fyrir hönd UMFÍ. Hún þakkaði honum fyrir störfin í þágu hreyfingarinnar og flutti honum kveðju frá Hauki Valtýssyni, formanni UMFÍ.
Foreldrar Sveins voru í Ungmennafélagi Barðastrandar frá upphafi og gekk Sveinn í félagið um leið og hann hafði aldur til. Hann er heiðursfélagi ungmennafélagsins sem er aðildarfélag Héraðssambandsins Hrafna-Flóka.
Ásgeir segir föður sinn hafa hafa mætt á hvert einasta héraðsmót í 70 ár. Í afmælinu hafi margir gestir og sveitungar Sveins stigið á stokk og rifjað upp skemmtileg atvik frá íþróttamótum um og eftir miðja öldina á Vestfjörðum.
Sveinn er af mörgum þekktur sem Sveinn á Múla.
Hér á myndinni að ofan má sjá hann með einu barna sinna, Þórólfi Sveinssyni.
Stundaði íþróttir af ýmsu tagi
Hann er fæddur á Innri-Múla á Barðaströnd 13. des¬em¬ber 1927. Hann gerðist ungur bóndi á Innri-Múla og rak þar verslun á staðnum frá 1966. Árið 1972 hóf hann rekstur bensínstöðvar, þeirrar síðustu á leiðinni til Látrabjargs, vestasta tanga Evrópu á sunnanverðum vestfjörðum. Rekstri á Múla hætti hann árið 2014, þá að verða 87 ára gamall.
Í tilefni af stórafmæli Sveins segir frá því í Morgunblaðinu að búskapur hafi átt hug og hjarta hans alla tíð. Auk þess hafi hann líka haft áhuga á uppgangi sveitarinnar tók hann þátt í stjórnmálum og stundaði íþróttir af ýmsu tagi.
Sveinn var sæmdur heiðursmerki UMFÍ fyrir störf sín í þágu íþrótta og gerður að heiðursborgara Vestur-byggðar 2017. Sveinn hefur dvalið á Hrafnistu í Hafnarfirði frá því í janúar á þessu ári. Hann hefur alla tíð búið við mjög góða heilsu og varla orðið misdægurt.
Eiginkona Sveins er Guðjóna Kristín Hauksdóttir frá Fjarðarhorni í Gufudalssveit. Börn þeirra eru Sigríður, Þórður, Jóna Jóhanna, Barði, Haukur Þór, Þórólfur, Hörður og Ásgeir. Barnabörnin eru 20 og barnabarnabörnin tvö.
Í samtali við Morgunblaðið segir Sveinn:
„Ég þakka háan aldur og góða heilsu reglusemi, hreyfingu og útiveru. Þótt ég sé nú fyrir sunnan er hugur minn og heimili ávallt fyrir vestan; við Breiðafjörðinn, þar sem ég sé Snæfellsjökulinn, vestfirsku fjöllin og dalina.“