Sveinn Ægir: Unglingalandsmót skilar miklu til samfélagsins
„Við í Björgunarfélagi Árborgar erum þakklát að geta loksins tekið þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi. Þetta er þriðja tilraunin. Í hinum tveimur var mótinu frestað vegna faraldursins,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, varaformaður Björgunarfélags Árborgar. Hann skrifaði á Uppstigningardag með Þóri Haraldssyni undir samning um vinnu við Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina.
Þórir er formaður Unglingalandsmótsnefndar UMFÍ, sem heldur mótið í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin (HSK) og Sveitarfélagið Árborg.
Upphaflega átti að halda Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020. Það gekk ekki eftir eins og svo margt annað í faraldrinum. Í fyrra var svo mótinu frestað á ný eins og nær öllum öðrum viðburðum UMFÍ.
Sveinn er afar ánægður að mótið verði haldið nú.
„Þetta er mikil vinna sem fer í gang nokkrum dögum fyrir mót þegar við byrjum að setja upp samkomutjald og gera tjaldsvæðið klárt. Síðan munum við sinna gæslu á Unglingalandsmótinu, gæta að gestum á tjaldsvæði mótsins og stýra flugeldasýningu. Þarna er vant fólk á hverjum stað,“ segir Sveinn Ægir sem telur að hátt í 40 manns á vegum félagsins muni vinna við mótið með einum eða öðrum hætti um verslunarmannahelgina.
Sveinn segir að í raun hafi undirbúningur fyrir Unglingalandsmótið verið langt kominn þegar því þurfti að fresta bæði árið 2020 og aftur í fyrra, en þá var búið að raða fólki niður á vaktir. Nú þurfi að dusta rykið af planinu og kanna hvort Björgunarfélagarnir eru ekki klárir.
„Þetta er skemmtilegt verkefni og hristir okkur saman í Björgunarfélaginu Þetta er líka gott fyrir nýliðana í félaginu. En mótið skiptir okkur líka máli því það skilar svo miklu til samfélagsins. Í okkar tilviki gengur fjármagnið upp í kaup félagsins á ýmsum búnaði sem nýtist okkur, báti og fleiru. Það sama gildir um fleiri þætti, bæði á Selfossi og fyrir aðildarfélög HSK,“ segir hann.
Sveinn Ægir er 24 ára en hefur samt aldrei tekið þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ nema sem gestur. Hann þekkir engu að síður vel til UMFÍ enda sat hann í Ungmennaráði UMFÍ og kom að undirbúningi og framkvæmd ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði sem haldin er á hverju ári. Því til viðbótar hefur hann tekið gríðarlega virkan þátt í félags- og stjórnmálastarfi. Hann var fjórði maður D-lista sem náði sex mönnum inn í meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum og situr hann því í bæjarstjórn Árborgar.
Hann segir Unglingalandsmót UMFÍ því lyftistöng og mikið um að vera í bænum um verslunarmannahelgina. Allir séu klárir, bæði þátttakendur og fjölskyldur þeirra á HSK-svæðinu.
„Allir krakkarnir eru klárir og margir búnir að skipta í lið. Þetta er mjög spennandi,“ segir hann.
Um Unglingalandsmót UMFÍ
Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið frá árinu 1992 og er orðin glæsileg fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem þúsundir barna og ungmenna koma saman með fjölskyldum sínum yfir verslunarmannahelgina.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Unglingalandsmót UMFÍ fer fram um verslunarmannahelgina, 29. - 31. júlí 2022 á Selfossi í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og Sveitarfélagið Árborg.
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hefst 1. júlí. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti 25. júlí.
Þátttakendur greiða eitt þátttökugjald, 8.500 kr. óháð því hvað þeir taka þátt í mörgum keppnisgreinum. Gjaldið þarf að greiða rafrænt við skráningu á mótið. Aðeins er greitt fyrir þátttakendur 11 – 18 ára. Frítt er fyrir systkini og foreldra. Innifalið er aðgangur að tjaldsvæði en greiða þarf aukalega fyrir rafmagn.