Fara á efnissvæði
30. maí 2024

Synir Rúna Júl segja sögurnar á bak við lögin

„Við ætlum að spila tónlist af Suðurnesjunum og segja sögurnar á bak við lögin og tónlistarfólkið. Þetta er bland í poka og gæti orðið mjög gaman,“ segir Baldur Þórir Guðmundsson. Hann kemur fram með Júlíusi, bróður sínum, á matar- og skemmtikvöldinu á Landsmóti UMFÍ 50+. Skemmtikvöldið rennur upp laugardaginn 8. júní.

Þeir Baldur og Júlíus eru synir tónlistarmannsins Rúnars Júlíussonar úr Hjómum og GCD og fleiri ofurgrúppum, sem starfrækti meðal annars Geimstein, sem gaf út heilmikið af tónlist á sínum tíma. Þar á meðal plötu Bjartmars Guðlaugssonar með þekktustu slögurum hans frá níunda áratug síðustu aldar á borð við Hippann og Sumarliða og fleiri. 

Á efnisskrá þeirra Baldurs og Júlíusar er eins og beint úr hirslum Geimsteins, lög og sögur af Magga Kjartans, Jóhanni Helgasyni, Bjartmari og fleirum. 

„Við spilum lögin á gítar og píanó og syngjum saman,“ segir Baldur, sem hefur hitað vel upp fyrir uppákomuna enda bæði prívat og opinberlega sagt sögur af tónlistarfólki á Suðurnesjum og spilað lög þeirra síðastliðin tíu ár.

 

Dagskráin

Matar- og skemmtikvöldið er liður í mótinu. Kaupa þarf miða á viðburðinn sérstaklega. 

Húsið opnar klukkan 18:00 og hefst formlegt dagskrá klukkan 19:00.

Borðhald er klukkan 19:15. Á matseðli er lambalæri og tilheyrandi. Skyrkaka verður í eftirrétt.

Veislustjóri verður Ásgeir Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Voga, sem ætlar að þenja nikkuna og segja sögur og stýra fjöldasöng.

Baldur og Júlíus stíga á stokk með sitt prógramm um klukkan 21:30.

Húsið verður opið meðan fjör í í því en gert er ráð fyrir að það standi til klukkan 23:30.

Matar- og skemmtikvöldið er opið öllum og eru bæjarbúar í Vogum og mótsgestir hvattir til að fjölmenna og njóta kvöldsins. 

 

Athugið að tvær skráningar eru annars vegar á Landsmót UMFÍ 50+ og hins vegar á matar- og skemmtikvöldið. Miðaverð er 5.400 krónur. Á umfi.is er hægt að kaupa miða fyrir allt að fjóra í einu. 

Nú fer líka hver að verða síðastur. Opið er fyrir skráningu í boccia fram á föstudaginn 31. maí. Lokað verður fyrir skráningu í allt annað mánudaginn 3. júní klukkan 16:00. 

 

Skrá á Landsmót UMFÍ 50+

Kaupa miða á matar- og skemmtikvöld