Fara á efnissvæði
05. desember 2020

Takk sjálfboðaliðar!

Árið 1985 gerðu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember að Alþjóðlegum degi sjálfboðaliða um alla heim. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða í samfélaginu. Það er mismunandi eftir löndum og tíma hvernig sjálfboðin störf eru skilgreind. Sjálfboðavinna felur samt alltaf í sér að einstaklingurinn velur sér starf að sinna og fær ekki greitt fyrir vinnu sína með hefðbundnum hætti – stundum ekki nema með brosi. Allur almenningur nýtur góðs af starfi sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðastörf eru oft unnin af frjálsum félagasamtökum í kringum ákveðinn málstað.

„UMFÍ fagnar degi sjálfboðaliðans og færir öllum sjálfboðaliðum mikið þakklæti fyrir þeirra óeigingjarna starf. Sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga UMFÍ leggja á sig ómælda vinnu til hagsbóta fyrir samfélagið. Án þessarar vinnu ætti það góða og viðamikla starf innan UMFÍ sér ekki stað. Störf sjálfboðaliða eru því ekki aðeins ómetanleg fyrir UMFÍ, heldur eru þau ómetanleg fyrir íslenskt samfélag,“ segir Haukur F. Valtýsson, formaður UMFÍ.

Auðlind íþróttahreyfingarinnar

Starfsemi íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar byggist á stórum hluta á vinnu sjálfboðaliða.

Sjálfboðaliðastörf byggja á áratuga hefð og eru í raun grundvöllur að því fjölbreytta íþróttastarfi sem fram fer um land allt.

Fjöldi fólks leggur íþróttahreyfingunni lið með því að sitja í stjórnum, nefndum, ráðum eða vinnuhópum. Sjálfboðaliðar taka þátt í foreldrastarfi eða hjálpa til við framkvæmd móta, kappleikja og/eða annarra viðburða.

Aldrei má missa sjónar á því gríðarlega mikilvæga framlagi sjálfboðaliða.

Það er langt í frá sjálfgefið og ber að meta að miklum verðleikum hverju sinni. Sjálfboðaliðar eru auðlind íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar. Án þeirra væri ekkert íþróttastarf á Íslandi.

 

Af hverju ætti ég að gerast sjálfboðaliði?

Innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar eru ástæður þess að fólk tekur að sér sjálfboðaliðastörf m.a. þær að með þeim hætti getur fólk kynnst öðrum foreldrum, þjálfurum, stjórnarmönnum í félaginu og þannig fullnægt félagslegum þörfum sínum ásamt því að hjálpa sínu félagi að ná settum markmiðum íþróttarinnar. Jafnframt er það tækifæri fyrir fólk að læra leikreglur, hvernig rekstur félagasamtaka gengur fyrir sig og almenn félagsstörf. Þátttaka og stuðningur foreldra er börnum og ungmennum mikilvægur og eykur líkur á að barnið haldi áfram að stunda íþróttir.