Takmarkanir á skólastarfi felldar niður
Allt er nú að þokast til betri vegar hvað sóttvarnir og samkomutakmarkanir snertir. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag frekari tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum. Þær fela í sér að almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 manns í 200 innandyra, takmörkun á skólastarfi fellur niður auk allra fjöldatakmarkana utandyra, sem falla niður. Þá falla sömuleiðir reglur um sóttkví á brott samstundis í dag. Reglur á landamærum breytast hins vegar ekki.
Áfram er þess krafist að útsettir fari varlega og viðhafi persónulegar sóttvarnir. Þá mun fólk með staðfest Covid-19 smit áfram sæta fimm daga einangrun.
Ný reglugerð tekur gildi á miðnætti aðfaranótt 12. febrúar 2022 og gildir hún til 25. febrúar.
Breytingarnar eins og þær varða starf íþrótta- og ungmennafélaga auk skólastarfs en þær reglur ná m.a. til Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.
- Almennar fjöldatakmarkanir: Fara úr 50 í 200 manns innandyra. Fjöldatakmarkanir utandyra falla brott.
- Hreyfing: Sund- og líkamsræktarstöðvum sem og skíðasvæðum er heimilt að taka á móti gestum með fullum afköstum.
- Íþróttakeppnir og -æfingar: Keppnir og æfingar heimilar með 200 manns í hólfi.
- Skólar: Reglugerð um takmörkun á skólastarfi fellur brott. Þar með gilda almennar reglur um samkomutakmarkanir í skólum, þó með undanteknum til rýmkunar.
- Skólaskemmtanir: Heimilt er að halda skólaskemmtanir í grunn- og framhaldsskólum án nokkurra takmarkana.
- Fjölmennir viðburðir: Heimilt verður að halda 1.000 manna viðburði að því tilskildu að allir sitji í sæti og beri grímu. Heimilt er að halda hlé á viðburðum og selja veitingar án takmarkana.
- Grímunotkun: Aðeins verður skylt að bera grímu ef ekki er hægt að viðhafa 1 metra reglu.
Reglugerð um einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19