Fara á efnissvæði
11. október 2019

Telur sóknarfæri felast í stækkun UMFÍ

„Eflum ungmennafélagsandann sem felst í því að efla sjálfan sig, hreyfinguna og samfélagið um leið. Ég tel framtíð hreyfingarinnar bjarta og hafa fullt erindi í samfélaginu og enn frekar ef hún stækkar,‟ sagði Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, við setningu 51. sambandsþings UMFÍ. Þingið fer fram á Laugarbakka í Miðfirði um helgina.

Hauki var tíðrætt um aukið samstarf ungmennafélaga um allt land, snögg viðbrögð íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda þegar íþróttakonur stigu fram og greindu frá ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir innan íþróttahreyfingarinnar, verkefnin framundan og framtíðina í starfi UMFÍ. Hann benti m.a. á rafíþróttir. Það sé nýjung í íþróttastarfi og geti ungmennafélög stutt við greinina með faglegri umgjörð og aðstöðu.

Stærstu framtíðarskrefin sagði Haukur umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ.

„Innan UMFÍ er einungis hluti íþróttahéraða. Við höfum staðfestar umsóknir nokkurra íþróttabandalaga um aðild að UMFÍ. Verði af inngöngu þeirra nú á þessu sambandsþingi mun UMFÍ stækka verulega, félögum fjölga. Við þetta munu nær öll íþróttahéruð verða komin inn í UMFÍ. Sóknarfæri felast í stækkun UMFÍ. Baklandi verður meira og krafturinn öflugri. Við fáum sterkari rödd. En stærra UMFÍ felur í sér að hreyfingin getur tekið að sér stærri verkefni fyrir alla á breiðari grunni og með sem flestum. Þetta er vissulega stefnumótandi ákvörðun. Eins og ég hef farið yfir þá eiga félagslegar og samfélagslegar áherslur UMFÍ erindi í samfélaginu. Við höfum rödd. En hún getur orðið sterkari.‟

 

Ræða Hauks í heild sinni:

 

          Setningarræða 51. sambandsþings UMFÍ, haldið 11. - 13. október 2019 

                                                að Laugarbakka í Miðfirði.

 

Kæru félagar!

Ég býð ykkur öll velkomin til 51. sambandsþings Ungmennafélags Íslands. 

Eins og ég kem inn á síðar, þá verður það stærsta verkefni þingsins nú að horfa til framtíðar. Þar eru stóru verkefnin sem ungmennafélagshreyfingin mun vinna að sem eitt - samfélaginu öllu til góða.

Með þessu sambandsþingi UMFÍ nú lýkur tveggja ára kjörtímabili núverandi stjórnar.

Það er því rétt að líta yfir unnin verk.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá aukna virkni innan hreyfingarinnar. Það er í samræmi við áherslur okkar um aukna samvinnu. Það eykur skilvirkni og bætir starfið – sem skilar sér til iðkenda.

Stjórn UMFÍ hefur víkkað sjóndeildarhringinn, bætt samtalið við ungmennafélög um allt land, farið í kynnisferðir bæði innanlands og utan og unnið markvisst með sambandsaðilum UMFÍ að því að tengja þá saman. Allt snýst þetta um að auka samvinnu sambandsaðila og íþróttahreyfingarinnar allrar til að bæta starfið.

Ég þakka starfsfólki UMFÍ að fylgja stjórn eftir í þessari vegferð.

En við höfum ekki aðeins bætt samvinnu innan UMFÍ. Við höfum líka unnið með fleirum utan hennar, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sérsamböndum þess, KKÍ, BLÍ, FRÍ, KSÍ og mörgum fleirum. Það er jákvætt enda skilar samvinna alltaf betri árangri.

Ég er sérstaklega stoltur af verkefninu Vertu með! Markmið þess er að stuðla að aukinni þátttöku barna og unglinga af erlendum uppruna um allt landi í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Nokkrir sambandsaðilar UMFÍ voru valdir til að vinna að verkefninu á sínu starfssvæði.

Verkefnið Vertu með hlaut styrk frá bæði barna- og velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.s

Ég er þakklátur fyrir styrki ráðuneytanna því þeir sýna að málefnið er brýnt.

Með innleiðingu verkefnisins leggjast allir á eitt um að bjóða börn og ungmennum af erlendum  uppruna velkomin í samfélag sitt og hjálpa þeim að taka þátt í því. Í þessu verkefni er samvinnan alltumlykjandi. Samvinnan innan UMFÍ og stuðningur hins opinbera svo íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin geti bætt samfélagið.

Annað málefni sem brennur á stjórn UMFÍ er ofbeldi í öllum þeim myndum sem það getur birst í íþróttastarfi. MeToo-hreyfingin hreyfði við fólki.

Við fögnum því hversu fljótt stjórnvöld brugðust við ákalli íþróttahreyfingarinnar um aðgerðir gegn ólíðandi ofbeldi, setti saman vinnuhóp um málið og átti UMFÍ sæti í honum. Niðurstaðan birtist í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um samskiptaráðgjafa fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Nú er farið að styttast í að ráðið verði í starfið.

Þessi farvegur er til bóta enda nauðsynlegt að færa meðferð allra mála úr nærumhverfi sínu í hendur fagfólks.

En nú að öðrum stórum verkefnum stjórnar.

Allt þetta ár höfum við unnið að undirbúningi og flutningi Ungmennabúða UMFÍ frá Laugum í Sælingsdal til Laugarvatns. Samningur okkar við Dalabyggð náði til sumars 2019 auk þess sem fasteignirnar á Laugum voru auglýstar til sölu.

Í Ungmennabúðunum er lögð áhersla á útivist, hreyfingu og félagsfærni og markmiðið að styrkja félagsfærni nemenda sem þangað koma, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og hvetja þá til að til að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.

Ungmennabúðir UMFÍ hafa fest sig í sessi á þeim 14 árum sem þær hafa starfið og fengið lofsamlega dóma hjá skólastjórnendum um allt land. Frekar en að hætta starfsemi Ungmennabúðanna var ákveðið að flytja þær.

Mikil orka og kostnaður hefur farið í þessa flutninga til Laugarvatns.

Starfsemi Ungmennabúðanna á Laugarvatni hófst nú í ágúst og gengur vonum framar. Anna Margrét og Jörgen stýra búðunum á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum möguleikum í starfseminni. 

Ég hef oft bent á að stór hreyfing eins og UMFÍ getur haft áhrif í samfélaginu. Og hún á að gera það. Innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar eru svo margir sjálfboðaliðar sem leggja mikið á sig til að gera það að veruleika. Þetta er ómetanlegt starf.

Ég hef oft lagt áherslu á að hreyfingin vinni með stjórnvöldum að jákvæðum málum og í samræmi við áherslur í lýðheilsumálum fyrir samfélagið. Stjórnvöld styðja við stefnu okkur þar með nýútkominni stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytisins í íþróttamálum.

En auðvitað byggjum við starf okkar að stærstum hluta á stefnu okkar sem er „Samfélaginu til góða.‟

Við getum komið enn sterkar að þeim málum en við höfum gert og haft okkar að segja í forvarnarmálum. Það er aðkallandi nú sem fyrr. Þar má nefna dæmi eins og forvarnir í fíkniefnamálum, rafrettum og sem stuðningur í því að efla lýðheilsu landsmanna á allan mögulegan hátt. Undanfarið hefur verið umræða um átak til að auka hreyfingu eldri borgara. Það er gott mál. En ég vil að við hugum almennt að lýðheilsu, frá barnsaldri, hreyfingu og heilsu yngra fólks og áhrifanna af hreyfingu alla ævina.

Það eigum við að gera sem kröftug rödd íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar.

Saman komum við fólki á hreyfingu. Það er – eins og alltumlykjandi starf okkar er – samfélaginu til góða. 

Forvarnir eru eilíft verkefni og þar má aldrei gefa eftir. Von mín er að stjórnvöld vinni með okkur í ungmennafélagshreyfingunni að því að bæta grunninn. Fyrir okkur öll.

Í tengslum við forvarnir vil ég sérstaklega nefna mótin á næsta ári: Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Borgarnesi og Íþróttaveislan í Kópavogi í júní 2020. En svo er það forvarnarverkefnið Unglingalandsmót UMFÍ sem verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Ég hvet sambandsaðila UMFÍ sérstaklega til að merkja dagsetningarnar hjá sér og alla aldurshópa að fjölmenna á mótin.

Rafsport eða rafíþróttir eru mjög vaxandi og hafa verið talsvert í umræðunni. Við höfum fengið kynningu frá Rafíþróttasamtökum Íslands og í framhaldinu tel ég að við eigum að taka rafíþróttafólki opnum örmum.

Rafíþróttir er eins og hver önnur nýjung í íþróttastarfi. Mikilvægt er að búa nýjum iðkendum faglega umgjörð og aðstöðu. Það geta íþróttafélög gert.

Félögin ættu að styrkjast með auknum fjölda félaga og félögin styrkja einstaklingana.

Ég hvet ykkur til að skoða rafíþróttir með opnum huga og jákvæðu hugarfari.

En nú kemur að stóra málinu.

Innan UMFÍ er einungis hluti íþróttahéraða. Við höfum staðfestar umsóknir nokkurra íþróttabandalaga um aðild að UMFÍ. Verði af inngöngu þeirra nú á þessu sambandsþingi mun UMFÍ stækka verulega, félögum fjölga. Við þetta munu nær öll íþróttahéruð verða komin inn í UMFÍ.

Sóknarfæri felast í stækkun UMFÍ. Baklandi verður meira og krafturinn öflugri. Við fáum sterkari rödd. En stærra UMFÍ felur í sér að hreyfingin getur tekið að sér stærri verkefni fyrir alla á breiðari grunni og með sem flestum. Þetta er vissulega stefnumótandi ákvörðun. 

Eins og ég hef farið yfir þá eiga félagslegar og samfélagslegar áherslur UMFÍ erindi í samfélaginu. Við höfum rödd. En hún getur orðið sterkari.

Ég hef lýst því yfir áður en ítreka það nú að ég styð að íþróttabandalögum verði veitt aðild að UMFÍ. Það tel það heillavænlegra að hafa þau innan okkar raða. Ef þau standa ein geta þau bundist höndum og myndað ein samtök í viðbót, samtök íþróttabandalaga. Þá munu tvö landssamtök stefna að sama marki.

Eins og ég – og reyndar stjórnin öll – hefur talað fyrir í gegnum tíðina þá er samvinna málið. Samvinna skilar alltaf árangri. Við skulum vinna saman.

Öll stjórn UMFÍ stendur að baki tillögu um að þau íþróttabandalög sem sótt hafa um aðild verði samþykkt þar inn. Þörfin á að endurskoða íþróttahéruðin er orðin veruleg ekki hvað síst þegar horft er til aðstöðumunar og þjónustustigs út um allt land. En meiri möguleikar felast í því að samþykkja aðildina.

Samkvæmt íþróttalögum á UMFÍ að vinna að skiptingu eða breytingu á íþróttahéruðum ásamt ÍSÍ. Við teljum hagfelldast að öll íþróttahéruð séu í UMFÍ, landssambandi ungmennafélaga.

Verði aðild íþróttabandalaganna að UMFÍ samþykkt þá er það aðeins fyrsta skrefið að langri vegferð sem mun styrkja minni íþróttahéruð. 

UMFÍ hefur lagt hart að sér að treysta grunninn verði aðildarumsókn íþróttabandalaganna samþykkt. Þar á meðal er skipting peninga frá Íslenskri getspá og Íslenskum getraunum eða lottópeningana. Fyrir þinginu liggur tillaga þess efnis að girt er fyrir að nýir sambandsaðilar sem teknir verða inn eftir 31.desember 2018 fái úthlutað fjármagni þaðan fyrr en samið hefur verið upp á nýtt um skiptingu fjárins. Sátt er um girðinguna í vinnuhópi um umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ og stjórn UMFÍ. Íþróttabandalögin eru það líka.

Ég hef setið í stjórn UMFÍ í 8 ár og tel mig hafa talsverða yfirsýn yfir hvað best er að gera í stöðunni. Því hvet ég þingfulltrúa til að horfa til framtíðar. Ef við ætlum að efla og styrkja ungmennafélagshreyfinguna þá skulum við samþykkja tillöguna um inngöngu íþróttabandalaga að UMFÍ. Það mun skila sér í sterkari og breiðari. En það sem mestur skiptir, mun betri samningsstöðu í framhaldinu. 

En skulum muna að ungmennafélagshreyfingin þarf og verður að standa vörð um sín sérkenni, sínar áherslur og þau gildi sem hafa gert hana sérstaka og verið samfélaginu til góða. Höldum því áfram og eflum ungmennafélagsandann sem felst í því að efla sjálfan sig, hreyfinguna og samfélagið um leið. 

Ég tel framtíð hreyfingarinnar bjarta og hafa fullt erindi í samfélaginu og enn frekar ef hún stækkar. 

Hér á eftir verður farið betur og ítarlega yfir starfsemi hreyfingarinnar í skýrslu stjórnar

Ég færi þeim sem hafa setið með mér í stjórn UMFÍ þetta kjörtímabil þakkir fyrir afar gott samstarf. Þá þakka ég, fyrir hönd okkar allra, þeim Erni Guðnasyni og Hrönn Jónsdóttur sem nú eru að stíga til hliðar fyrir samstarfið og framlag til samtakanna. Loks þakka ég starfsfólki okkar fyrir frábært samstarf og ég vona að þið getið einnig vitnað um gott samstarf við starfsfólk okkar.    

Ég segi 51.sambandsþing UMFÍ sett.