Fara á efnissvæði
19. mars 2018

Thelma ráðin verkefnastjóri Landsmótsins

 

„Þetta starf leggst mjög vel í mig. Ég er spennt enda nóg að gera þótt skipulagning Landsmótins sé langt komin,“ segir Thelma Knútsdóttir. Hún hefur verið ráðin verkefnastjóri Landsmótsins sem fram fer á Sauðárkróki í sumar. Thelma hóf störf sem verkefnastjóri í síðustu viku. Þegar náðist í hana var hún uppi á Nöfum á Sauðárkróki að skipuleggja svæðið. Þar verða tjaldsvæði fyrir þátttakendur mótsins og gesti. En þar er líka besta útsýnið yfir bæinn og fjörðinn. Að verki sínu loknu þar hafði hún í hyggju að hitta veitingasala og fleira tengt mótinu.

Thelma segir undirbúning Landsmótsins ganga vel. „Það er búið að skipuleggja hverja grein og sérgreinarstjórnar klárir. Þetta er allt að koma.“

Thelma er enginn aukvisi þegar kemur að verkefnastjórn. Hún er Sauðkrækingur og þekkir allar aðstæður. Til viðbótar er hún með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Marymount University í Virginíu í Bandaríkjunum.

Thelma er framkvæmdastjóri Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS). Börn hennar hafa farið á Unglingalandsmót UMFÍ ásamt því sem hún hefur sem framkvæmdastjóri haldið utan um ferðir félagsmanna á mót á vegum UMFÍ. Þá er hún líka formaður frjálsíþróttadeildar Tindastóls á Sauðárkróki.

 

Íþróttaveisla á Sauðárkróki

Landsmótið á Sauðárkróki er íþróttaveisla sem mun standa yfir dagana 12. – 15. Júlí. Mótið er ætlað 18 ára og eldri. Á sama tíma fer fram Landsmót UMFÍ 50+. Afþreying á því móti verður með því flottasta sem sést hefur.

Á mótinu er hægt að velja fleiri en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Þátttökugjald er 4.900kr.

Skáning á Landsmótið hefst 1. apríl.

Meiri upplýsingar um Landsmótið er á slóðinni www.landsmotid.is