Fara á efnissvæði
05. febrúar 2025

Þorgerður er nýr formaður UMSE

„Það er nóg að gera. Þetta hefðbundna er fram undan, ársþing og fleira,“ segir Þorgerður Guðmundsdóttir, sem í gærkvöldi tók við sem formaður Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE). Þorgerður tók við af Sigurði Eiríkssyni, sem hefur verið formaður frá árinu 2018. 

Hér að ofan má sjá mynd af þeim báðum, sem tekin var á fundi UMSE í gærkvöldi.

Þorgerður tók sæti í varastjórn UMSE árið 2008 og hefur verið varaformaður þar til í gærkvöldi. Ekki hefur verið ákveðið hver tekur stöðu Þorgerðar sem varaformaður.

Þorgerður hefur ekki bakgrunn í íþróttum en fylgdi börnum sínum í félagsstörfin, sem æfðu frjálsar íþróttir.

Mörg mál eru á herðum stjórnar UMSE þessa dagana enda félagið án framkvæmdastjóra. Um þessar mundir er verið að leita einstaklings í stöðuna, sem er 50%.

Allir leggja þar hönd á plóg en svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna á Norðurlandi eystra vinna með stjórn UMSE að því að finna sambandinu framkvæmdastjóra.

Sambandssvæði Ungmennasambands Eyjafjarðar nær yfir fimm sveitarfélög og eru aðildarfélögin fjórtán talsins. Starfsemin er mismunandi. Sex félaganna eru ungmennafélög og eru þau einnig fjölgreinafélög. Átta þeirra eru sérgreinafélög, þar af þrjú hestamannafélög, akstursíþróttafélag, golfklúbbur, skíðafélag, blakfélag og sundfélag. Innan aðildarfélaganna eru akstursíþróttir, badminton, bandý, blak, fimleikar, frisbígolf, frjálsíþróttir, golf, hestaíþróttir, knattspyrna og sund.

 

UMSE er einn af 25 sambandsaðilum UMFÍ. Sambandsaðilarnir skiptast í 24 íþróttahéruð og eitt ungmennafélag með beina aðild. Alls eru um 450 félög um allt land innan UMFÍ. 

 

Heimasíða UMSE