Fara á efnissvæði
30. ágúst 2017

Þórir og Anna fjalla um liðsheild og leiðtoga

Hvernig er hægt að hámarka árangur liðsheildar á sama tíma og hver einstaklingur fær tækifæri til að njóta sín? Hvert er hlutverk leiðtogans í þessu öllu saman?

Við þessum spurningum leita þau svara Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, og jógakennarinn og markþjálfinn Anna Steinsen á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins þriðjudaginn 5. september.

Á fundinum verður sjónum beint að uppbyggingu árangursmenningar. Stjórnendur fyrirtækja jafnt sem íþróttaþjálfarar standa daglega frammi fyrir þeirri áskorun að hámarka árangur þeirrar liðsheildar sem þeir vinna með á sama tíma og markmiðið er að hver einstaklingur njóti sín.

Á meðal þess sem spurt er: Hvert er hlutverk leiðtogans, hvaða vægi hafa gildi, liðsheild og viðhorf?

Til að svara þessum spurningum hefur norsk-íslenska viðskiptaráðið leitað til þeirra Önnu og Þóris sem tengja saman Noreg og Ísland, viðskiptalíf og íþróttir, árangur liðsheildar og árangur einstaklinga.

Þetta er Þórir
Þórir Hergeirsson hefur verið þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta síðan 2009 og hefur fimm sinnum hlotið titilinn þjálfari ársins hjá Alþjóða handknattleikssambandinu. Undir hans stjórn hefur liðið unnið fimm Evrópu- og heimsmeistaratitla auk Ólympíumeistaratitils. Þórir talar um þróun og uppbyggingu árangursmenningar, í gegnum þætti eins og grunngildin sem undirstöðu, hans hlutverk sem leiðtoga, áherslur á einstaklinginn jafnt sem liðsheild, heildræna nálgun í þjálfun jafnt sem markvissa þjálfun hvers einstaklings.

Þetta er Anna
Anna Steinsen starfar sem stjórnenda- og heilsumarkþjálfi, fyrirlesari og jógakennari. Síðastliðin 14 ár hefur Anna séð um rekstur á námskeiðum fyrir ungt fólk og hafa yfir 5000 ungmenni útskrifast. Hún hefur þjálfað og veitt ráðgjöf fyrir fyrirtæki hérlendis og erlendis. Anna er með íþróttabakgrunn, spilaði handbolta, fótbolta og badminton á sínum yngri árum og var í unglingalandsliðum í öllum þessum greinum. Hún ræðir mikilvægi þess að nýta gott viðhorf og góða liðsheild inn í fyrirtækjum.

Aðgangseyrir er á bilinu 2.500-3.500 krónur.

Ítarlegri upplýsingar og skráning: Tix.is