Fara á efnissvæði
01. júlí 2022

Þorvaldsdalsskokkið er elsta óbyggðahlaup landsins

Þorvaldsdalsskokkið verður haldið á svæði Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) á morgun. Hlaupið hefur farið fram árlega síðastliðin 29 ár og er það elsta skipulagða óbyggðahlaup á Íslandi. Hlaupið er skipulagt af UMSE og er það í samstarfi við Landvættaverkefni Ferðafélags Íslands.

Þorvaldsdalur er við vestanverðan Eyjafjörð og skerst inn á milli fjallanna upp af Ársskógsströnd. 

Hlaupið skiptist í tvennt. Annars vegar Landvætt, sem er tæplega 25 kílómetra hlaup, og Hálfvætt, sem er 16 kílómetra hlaup. 

Þorsteinn Marinósson, framkvæmdastjóri UMSE, er ánægður með þátttökuna. Hlauparar séu rétt undir 200 talsins, sem er lítilsháttar samdráttur frá í fyrra. Um helmingur þátttakenda eru að taka þátt í Landvættaviðburðunum. 

Nánari upplýsingar um Þorvaldsdalsskokkið er að finna á vefsíðu hlaupsins.

UMSE er einn af 26 sambandsaðilum UMFÍ. Sambandsaðilarnir skiptast í 21 íþróttahérað og 5 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn. Flest eru þau íþrótta- og ungmennafélög.