Fara á efnissvæði
22. júní 2020

Þorvaldsdalsskokkið – óbyggðahlaup um Þorvaldsdal í Eyjafirði

Hugmyndin að Þorvaldsdalsskokkinu kviknaði hjá Bjarna E. Guðleifssyni, náttúrufræðingi og fjallgöngugarpi, eftir að hann varð vitni að skosku fjallahlaupi upp á hæsta fjall Skotlands, Ben Nevis. Skokkið var fyrst haldið árið 1994 og hefur farið fram árlega síðan. Þátttakendur hafa oftast verið á bilinu 20 til 50 en í ár stefnir í  metþátttöku. Bjarni sá um skokkið fram á þessa öld í samstarfi við ungmennafélögin á svæðinu, Reyni á Árskógsströnd og Smárann í Hörgárdal, auk þess sem Ferðafélagið Hörgur og Björgunarsveitin á Árskógsströnd hjálpuðu til. Það var síðan árið 2006 sem Bjarni lét hlaupið í hendur Ungmennasambandi Eyjafjarðar sem hefur síðan staðið fyrir hlaupinu í samstarfi við ungmennafélögin tvö sem hafa komið að hlaupinu frá upphafi.

 

 

„Þátttaka í hlaupinu var lengstum hófleg, 20–35 keppendur. Mikill áramunur gat þó verið og líklega spilaði veðrið þar rullu. Síðustu ár hefur verið rólegur stígandi í þátttöku en alger sprenging varð í fyrra, 96 þátttakendur, og tókst flestum að ná markmiði sem landvættir,“ segir hlaupastjórinn Starri Heiðmarsson spurður út í þróun hlaupsins undanfarin ár. 

Starri var spurður hvað væri sérstakt við Þorvaldsdalsskokkið umfram önnur víðavangshlaup. „Það er fyrst og fremst fáir stígar eða leiðir sem hægt er að fylgja stóran hluta hlaupsins. Upp brekkuna úr Hörgárdal reyna hlauparar oft að fylgja kindagötum sem oftar en ekki leiða þá á villigötur. Þegar upp í Kytru, hápunkt hlaupsins, er komið eru oft engar kindagötur til að fylgja og það sama á við á fleiri stöðum. Seinni hluti hlaupsins er eftir ákveðnum stígum og að lokum jeppaslóða. Einnig er sérstakt að líta má á Þorvaldsdal sem „endalausan“,“ segir hann.

 

Hlaupið gegnum dal

Þorvaldsdalur er opinn í báða enda, opnast suður í Hörgárdal og norður á Árskógsströnd. Þorvaldsdalsskokkið hefst við réttina sunnan við Fornhaga og er hlaupið norður yfir brúna á Ytri-Tunguá og síðan upp með gilinu og er áin höfð á vinstri hönd. Um 300 m ofan vegar er fjallsgirðing og er þar opið hlið sem menn fara í gegnum.

Síðan er fjárgötum og dalbotninum fylgt og þess gætt að hafa ána ætíð á vinstri hönd og fjallshlíðina á hægri hönd. Fyrst rennur áin á móti hlaupurum, en á vatnaskilum (í Kytrunni sem er um 500 m yfir sjávarmáli) hverfur hún en rennur síðan með hlaupastefnunni.

Hlauparar þurfa gæta þess að fara ekki vestur yfir dalbotninn á vatnaskilunum sem eru í námunda við fyrstu drykkjarstöð, en þetta er helsti möguleikinn á því að villast. Fjórar drykkjarstöðvar eru á leiðinni og þar eru björgunarsveitarmenn til taks. Hrafnagilsá, eina verulega þveráin sem er síðla á hlaupaleiðinni, var nýlega brúuð með göngubrú en áður var jeppi þar til taks til að ferja menn yfir. Nú hlaupa menn yfir á brúnni. Þaðan er skokkað eftir jeppavegi (um 5 km) að endamarki við Árskógsskóla. 

 

 

Þátttakendur geta skilið ökutæki og búnað eftir í grennd við markið en þaðan er þeim ekið að rásmarkinu við Fornhaga. Þorvaldsdalsskokkið er ætlað öllum, bæði konum og körlum, sem telja sig komast þessa leið hlaupandi eða skokkandi á innan við fimm klukkustundum. Sá sem hraðast hefur hlaupið var 1 klukkutíma, 47 mínútur og 12 sekúndur og elsti þátttakandinn hingað til var 79 ára. Götuskokkarar, göngumenn og aðrir eru hvattir til að fara á sínum hraða um þennan fallega dal. Þetta skokk er gjörólíkt öllum götuhlaupunum sem nú eru í boði.

Framkvæmdaaðilar Þorvaldsdalsskokksins eru: Ungmennasamband Eyjafjarðar, Ungmennafélagið Reynir, Árskógsströnd, og Ungmennafélagið Smárinn, Hörgárbyggð.

Upplýsingar um hlaupið má finna á heimasíðu þess: thorvaldsdalur.umse.is.

Facebook-síða hlaupsins er hér: Þorvaldsdalsskokkið

 

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Blaðið má nálgast víða um land en líka á vefsíðu UMFÍ: Lesa blaðið