Þótti sjúklega gaman að kynna UMFÍ

„Þetta gekk mjög vel og var stórskemmtilegt,“ segir Ernir Daði Sigurðsson, nemandi við Menntaskóla Borgarfjarðar. Hann á líka sæti í Ungmennaráði UMFÍ og kynnti starf UMFÍ, ungmennaráðið og Unglingalandsmót UMFÍ ásamt öðru í starfi UMFÍ á opnum degi í Lífsnámsviku menntaskólans. Með í för var faðir hans, Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði.
Á sama bási voru svæðisfulltrúar íþróttahreyfingarinnar á Vesturlandi, þau Álfheiður Sverrisdóttir og Heiðar Mar Björnsson. Svæði þeirra nær yfir Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB), Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappdalssýslu (HSH) og Ungmennasamband Dalamanna- og Norður-Breiðfirðinga ( UDN). Þau kynntu fyrir fólki íþróttastarfið á Vesturlandi og starf svæðisfulltrúanna, sem eru sextán talsins með skrifstofur á átta stöðum um allt land.
Lífsnámsvika er haldin einu sinni á önn í Menntaskóla Borgarfjarðar. Í Lífsnámsvikunni nú var þemað geðheilbrigði, hreyfing og næring. Nemendur kynntust ýmsum þáttum sem tengjast geðheilsu, geðvernd og forvörnum. Unnið var með mikilvæga góða lifnaðarhætti, svo sem hreyfingu, næringu og svefn og tengsl þeirra við geðheilsu fólks. Lögð var áhersla á þá þætti sem stuðla að góðri líðan og eflingu sjálfsmyndar og að sjálfsögðu kom UMFÍ sterkt inn í þann hluta.
Fjöldi fólks kíkti við á þennan opna dag Lífsnámsvikunnar í skólanum, bæði nemendur, foreldrar og forráðafólk þeirra. Ernir Daði bauð áhugasömum um UMFÍ upp á súkkulaðimola og gaf því eintök af Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
„Þetta var sjúklega gaman,“ heldur Ernir Daði áfram. „Fólk var forvitið um svæðisstöðvarnar og vinnu þeirra, brottfall úr íþróttum og ungmennaráðið og ýmislegt fleira,“ segir hann.