Fara á efnissvæði
27. mars 2023

Þröstur sæmdur gullmerki

Þröstur Guðnason, formaður Ungmennafélagsins Ingólfs í Holtum var sæmdur gullmerki Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) á héraðsþingi sambandsins á fimmtudag í síðustu viku. Hann hlaut jafnframt starfsmerki UMFÍ. Bjarni Jóhannsson úr Golfklúbbi Hellu var á sama tíma sæmdur starfsmerki UMFÍ fyrir störf sín.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, afhenti Þresti gullmerkið.

Ragnheiður Högnadóttir var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ. Hún situr í stjórn UMFÍ og er formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ.

 

 

Á þinginu voru fimm einstaklingar frá aðildarfélögum heiðraðir. Auk þeirra Þrastar og Bjarna sæmdi ÍSÍ hjónin Katrínu Aðalbjörnsdóttur og Óskar Pálsson úr Golfklúbbnum Hellu gullmerki ÍSÍ og Gestur Einarsson, sem á sæti í varastjórn HSK var sæmdur silfurmerki ÍSÍ.

HSK veitti jafnframt nokkur sérverðlaun á þinginu. Körfuknattleiksfélag Selfoss hlaut unglingabikar HSK, Hestamannafélagið Geysir fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Garðar Garðarsson valinn öðlingur ársins.

Löng hefð er fyrir því að útnefnda matmann þingsins og halda sleifarkeppni sem nokkrir þingfulltrúar taka þátt í. Guðmundur Karl Sigurdórsson vann sleifarkeppnina og Jóhanna Bríet Helgadóttir var valin matmaður þingsins. Keppni um matmann þingsins hefur smitað út frá sér en fyrir tilstuðlan HSK er matmaður sambandsþings UMFÍ útnefndur á þingum sambandsins annað hvert ár.

Val á íþróttamanni og íþróttakonu HSK var kunngjört á þinginu. Kylfingurinn Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss og júdómaðurinn Egill Blöndal frá Umf. Selfoss voru útnefnd íþróttafólk ársins 2022 hjá HSK.

Vel var mætt á þingið, sem fram fór á Hellu. Stjórn HSK lagði fram tólf tillögur og voru þær samþykktar.

Allir stjórnar- og varastjórnarmenn HSK gáfu kost á sér áfram og urðu því engar breytingar á stjórn héraðssambandsins.

Myndskreytt ársskýrsla kom út á þinginu og má sjá vefútgáfu skýrslunnar á www.hsk.is.  

 

Á myndunum hér að ofan má sjá:

1. Guðríði Aadnegard, formanns HSK, með Þresti Guðnasyni.

2. Ragnheiði Högnadóttur ásamt Bjarna Jóhannssyni, sem var sæmdur starfsmerki UMFÍ.

3. Garðar Garðarsson öðlingur ársins.

4. Íþróttakona og íþróttakarl HSK 2022.