Fara á efnissvæði
18. desember 2020

Þróun á nýrri aðferðafræði í íþróttum fær stóran styrk

Nýtt þróunarverkefni á vegum Sýnum karakter hefur hlotið tæplega 30 milljón króna styrk úr Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið snýst um að þjálfa fimm þætti í sálrænni og félagslegri færni barna og unglinga í íþróttum eins og þá líkamlegu. Þessir þættir eru skuldbinding, samskipti, sjálfstraust, sjálfsagi og  einbeiting, á ensku Commitment, Communication, Confidence, Self-Control og Concentration. Þetta eru hin svokölluð fimm C (The 5C´s), en það kerfi  var upphaflega þróað af  íþróttasálfræðingnum Dr. Chris Harwood við Loughborough háskólann í Bretlandi og eru mikil líkindi með því og íslenska verkefninu Sýnum karakter.

Samstarfsaðilar að verkefninu eru ÍSÍ og UMFÍ, ásamt Loughborough háskóla í Bretlandi, Háskólanum í Reykjavík, Knattspyrnusambandi Íslands og Fimleikasambandi Íslands. Aðferðafræðin verður prófuð meðal 11 til 17 ára iðkenda í tveimur íþróttafélögum, einni deild í knattspyrnu og annarri í fimleikum. Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík og Loughborough háskóla munu leiða rannsóknarvinnu í tengslum við verkefnið, og rannsaka áhrif innleiðingarinnar á iðkendur, foreldra og þjálfara.

 

Samstarf ÍSÍ og UMFÍ

Sýnum karakter er samstarfsverkefni sem ÍSÍ og UMFÍ hleyptu af stokkunum í október 2016. Það er hugsað sem átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Nokkrar ráðstefnur hafa verið haldnar undir merkjum Sýnum karakter þar sem fjallað hefur verið um málið frá ýmsum sjónarhornum.

 

 

Í nóvember árið 2018 hélt dr. Chris Harwood, íþróttasálfræðingur við Loughborough háskóla í Bretlandi, fyrirlestur um hugmyndinafræðina The 5C´s og með hvaða aðferðum hægt er að innleiða aðferðafræðina inn í íþróttafélög. Vinnustofur voru haldnar í tengslum við heimsókn Harwood hingað til lands. Á myndinni hér að ofan má sjá hann á námskeiðinu.

 

Ný aðferð hjálpar þjálfurum og eflir iðkendur

Styrkurinn er til tveggja og hálfs árs og gerir ráð fyrir að haldin verði námskeið og vinnustofur í hugmyndafræðinni, fyrir þjálfara, iðkendur og foreldra þeirra sem eru þátttakendur í verkefninu.

„Á undanförnum árum hefur áhugi á þessari hlið þjálfunar aukist bæði hér heima og í öðrum löndum. En þrátt fyrir að þjálfarar og stjórnendur íþróttafélaga séu allir af vilja gerðir og hafi áhuga á því að efla iðkendur á þessu sviði þá hefur það reynst þrautinni þyngri að átta sig á því hvernig best er að skipuleggja slíka þjálfun og framkvæma hana innan félaganna,“ segir Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri Þróunar- og fræðslusviðs hjá ÍSÍ.

 

 

„Eitt af lykilhlutverkum þjálfara er að skapa umhverfi þar sem iðkendur fá tækifæri til að vaxa sem heilsteyptir einstaklingar samhliða því að taka framförum í sinni grein. Hugmyndafræðin hefur aðallega verið unnin fyrir knattspyrnu. En það er einfalt að yfirfæra hana á aðrar íþróttagreinar. Styrkurinn hjálpar okkur við að prufukeyra þessa innleiðingu á Íslandi fyrir íslenska iðkendur á næstu tveimur árum. Rannsóknir háskólanna munu svo gefa okkur niðurstöður hvort þetta sé að skila þeim árangri sem við stefnum að. Í framhaldinu getum við svo vonandi byggt á þessari vinnu fyrir enn þá fleiri ungmenni,” heldur Þórarinn Alvar áfram.

Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar HR, segir að styrkurinn sé mjög mikilvægur og komi hann til með að hafa jákvæð áhrif á íþróttastarf barna og unglinga. „Það er afskaplega mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun á árangursríkri íþróttaþjálfun barna og unglinga hér á landi að rannsaka hvort inngripið virki og þá hvernig. Við hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni í samstarfi við öfluga samstarfsaðila,“ segir hún.

 

Ítarlegar upplýsingar um Sýnum karakter má sjá á vefsíðu verkefnisins: http://www.synumkarakter.is