Fara á efnissvæði
17. október 2018

Til hamingju Guðbjörg!

Guðbjörg Jóna Bjarna­dótt­ir náði þeim glæsilega árangri í gærkvöldi að verða ólymp­íu­meist­ari ung­menna í 200 metra hlaupi í Buenos Aires í Argentínu. UMFÍ óskar Guðbjörgu til hamingju með árangurinn á mótinu.

Guðbjörg, sem er fædd árið 2001, hefur eins og margt af íþróttafólki þjóðarinnar, oft tekið þátt á Unglingalandsmótum UMFÍ. Síðast gerði hún það í Borgarnesi árið 2016 en þar setti hún m.a. Íslandsmet í 4x100 metra boðhlaupi 16-17 ára stúlkna með sveit sinni í ÍBR.

Hér má sjá Guðbjörgu með þeim Dagbjörtu Lilju Magnúsdóttur, Töna Ósk Whitworth og Helgu Margréti Haraldsdóttur í sveit ÍBR í Borgarnesi.

Guðbjörg er gott dæmi um íþróttamann þar sem saman fer áhugahvöt og markmiðasetning. Allt um það og meira til er hægt að fræðast um á vefsíðunni Sýnum karakter, samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. 

Sýnum karakter er viðbót við stefnu og annað fræðsluefni íþróttahreyfingarinnar og byggir á því að nokkru leyti. Þar er bætt við hagnýtum upplýsingum og aðferðum sem þjálfarar geta nýtt sér í þjálfun barna og ungmenna með einföldum hætti. Verkefnið er þó hvorki altækt né endanlegt. Þvert á móti er því ætlað að þróast og dafna með framlagi þjálfara – og annarra sem áhuga hafa - sem hafa tækifæri til að koma með ábendingar og frekari fræðslupunkta inn í verkefnið. Verkefnið Sýnum karakter er að þessu sögðu hugsað sem upphaf að faglegri vinnu í þjálfun karakters en ekki sem endapunktur. 

Þar eru upplýsingar um markmiðasetningu, félagsfærni, leiðtogahæfni og margt fleira. 

Smellið á Sýnum karakter