Fara á efnissvæði
01. desember 2018

Til hamingju með daginn íslenska þjóð

Í dag fagnar Ísland 100 ára afmæli fullveldisins en á þessum degi árið 1918 tóku í gildi sambandslögin svokölluðu sem kváðu á um viðurkenningu Danmerkur á Íslandi sem fullvalda og frjálsu ríki.

Á þessum degi fyrir hundrað árum var íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni Íslands.

Íslenski þjóðfáninn lék stórt hlutverk í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Fram kemur í umfjöllun um fánann á vef Stjórnarráðs Íslands, að ágreiningur ríkit um gerð hans. Nokkrar hugmyndir hafa litið dagsins ljós um það hvernig íslenski þjóðfáninn ætti að líta út.

Gaman er að minnast þess að um tíma kom vel til greina að Hvítbláinn, fáni UMFÍ, yrði þjóðfáni Íslands.

 

Hvaða fána skal velja?

Forsaga málsins er sú að árið 1885 var í stjórnskipunarlaganefnd neðri deildar Alþingis flutt frumvarp þar sem gert var ráð fyrir því að þjóðfánanum yrði skipt í fjóra ferhyrnda reiti  með rauðum krossi, hvítjöðruðum. Þrír reitir fánanna skyldu vera bláir og í hverjum þeirra hvítur fálki. En fjórði reiturinn, stangarreiturinn efri, skyldi vera rauður með hvítum krossi, þ.e. eins og danski fáninn.

Einar Benediktsson skáld kastaði þeirri hugmynd fram í blaði sínu Dagskráin í mars árið 1897 að Íslendingar hafi sérstakan fána. Sá skyldi vera hvítur kross á bláum feldi.

„Þjóðlitir Íslands eru hvítt og blátt og tákna himininn og snjóinn,“ skrifaði Einar. Föðursystir hans, Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir, sem var formaður Hins íslenska kvenfélags, hafði forgöngu um að sauma fyrsta bláhvíta fánann þá um sumarið. Hann var fyrst borinn í skrúðgöngu við upphaf þjóðhátíðar sem Stúdentafélag Reykjavíkur gekkst fyrir 2. ágúst sama ár. Talið var að um þrjú þúsund manns hafi sótt hátíðina.

Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur í september árið 1906 kynnti Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, hins vegar fánahugmynd sína: hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Sá gæti litið nokkuð kunnuglega út fyrir Íslendinga í dag.

 

Engan þorskhaus, takk!

Nokkrar deilur spunnustu um fánamálið og tóku þær á sig ýmsar myndir áður en lauk og urðu stundum harðar. Um eitt voru menn þó sammála: Hið gamla innsigli Íslands með mynd af flöttum þorski og kórónu Danakóngs yfir þar sem þorskhausinn skyldi vera var óhafandi og skyldi varpast í ystu myrkur.

Fánamálið var hitamál á Alþingi og rætt um það í fánanefnd árin 1911 til 1914 hvaða fána ætti að velja, Hvítbláann eða þrílitan fána, bláann með hvítum og rauðum krossi.

Fánatillaga Matthíasar sigraði að lokum. Í kjölfarið tók UMFÍ hann upp á sína arma og hefur notað hann æ síðan við ýmis tækifæri. 

 UMFÍ óskar landsmönnum til hamingju með daginn.