Fara á efnissvæði
17. maí 2019

Til hamingju með daginn Íþróttasamband fatlaðra

Íþróttasamband fatlaðra fagnar 40 ára afmæli í dag en það var stofnað á þessum degi árið 1979.

Í tilefni dagsins er saga sambandsins rifjuð upp á vefsíðu þess.

UMFÍ óskar sambandinu til hamingju með daginn.

Fram kemur í umfjölluninni að árið hafi verið viðburðaríkt en þá tók stór hópur Íslendinga meðal annars þátt í heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabí.

Í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, er viðtal við Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi, umfjöllun um heimsleikana og viðtal við Jónas Sigursteinsson, íþróttakennara og þjálfara tveggja keppenda frá íþróttafélaginu Ívar í Bolungarvík. Þeir kepptu saman í „unified“-badminton á heimsleikunum en þar keppa fatlaðir og ófatlaðir saman.

 

Anna Karólína segir íþróttahreyfinguna þurfa að vinna með sameiginlegu átaki að því að ná betur til fatlaðra ungmenna- og íþróttafélaga. Hlutfallslega virðist fáir vera virkir, sé tekið mið af fjölda iðkenda á aldrinum 12-18 ára innan raða Íþróttasambands fatlaðra.

Anna segir einstaka greinar sem fatlaðir æfi hafa náð að eflast en aðrar ekki.

„Þar sem íþróttafélög fatlaðra eru til staðar virðast margir sækja í þau félög, frekar en almenn íþróttafélög sem bendir á mikilvægi þess að hafa slík félög sem valkost. Íþróttasamband fatlaðra hefur hvatt til þess að allir eigi val, allt sé rétt og ekkert rangt í því hvar fólk vill æfa, hvort sem er með sérstöku félagi fyrir fatlaða eða almennu íþróttafélagi,“ segir hún.

 

Hvað kemur í veg fyrir æfingar?

Anna telur að greina þurfi hvað það er sem heldur aftur af ungu fólki með sérþarfir og hafi áhuga á að stunda íþróttir en geri það ekki. Hún telur ástæðurnar geta verið mismunandi. En skoða þurfi hvort um sé að ræða hvort þau fái ekki tækifæri til þess eða að þau upplifi sig ekki velkomin á æfingar. Jafnvel geti verið að aðgengismál eða annað sem hugsanlega tengist sjálfsmynd þeirra komi í veg fyrir að þau stundi íþróttir.

„Það er þess virði að skoða þetta betur því margir segjast eignast í fyrsta skipti vini, þegar komið er í raðir Íþróttasambands fatlaðra. Það er athyglisvert og skiptir gríðarlega miklu máli að horfa ekki fram hjá því hve þessi þáttur er mikilvægur,“ segir hún.                       

Anna heldur áfram: „Iþróttastarf er margvíslegt er það hefur sýnt sig að jákvæð upplifun af þátttöku í íþróttum getur stuðlað að sterkari sjálfsmynd, aukinni færni ýmsum verkefnum daglegs lífs og ekki síst náð að skapa vináttusambönd og félagslegt tengslanet. Jaðaráhrif íþróttastarfsins, ekki síst félagsleg áhrif skipta miklu máli fyrir hvern einstakling.“

 

Ráð Önnu fyrir stjórnendur íþróttafélaga til að ná betur til fatlaðra iðkenda:

Nýjasta tölublað Skinfaxa er hægt að lesa í heild sinni hér: Skinfaxi 1. tbl. 2018

Eldri tölublöð Skinfaxa