Fara á efnissvæði
05. desember 2022

Til hamingju með daginn!

Í dag er Dagur sjálfboðaliðans. Upphaf dagsins má rekja aftur til ársins 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að 5. desember yrði Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða um alla heim. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða í samfélaginu. Það er mismunandi eftir löndum og tíma hvernig sjálfboðin störf eru skilgreind. Sjálfboðavinna felur samt alltaf í sér að einstaklingurinn velur sér starf að sinna og fær ekki greitt fyrir vinnu sína með hefðbundnum hætti – stundum ekki nema með brosi. Allur almenningur nýtur góðs af starfi sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðastörf eru oft unnin af frjálsum félagasamtökum í kringum ákveðinn málstað.

Starf íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar byggist á stórum hluta á vinnu sjálfboðaliða.

Fjöldi fólks leggur íþróttahreyfingunni lið með því að sitja í stjórnum, nefndum, ráðum eða vinnuhópum. Sjálfboðaliðar taka þátt í foreldrastarfi eða hjálpa til við framkvæmd móta, kappleikja og/eða annarra viðburða.

Aldrei má missa sjónar á því gríðarlega mikilvæga framlagi sjálfboðaliða.

 

Ráðstefna um sjálfboðaliða

Í tilefni dagsins hefur mennta- og barnamálaráðuneytið ýtt úr vör átaki þar sem athygli er vakin á framlagi sjálfboðaliða hjá ýmsum félagasamtökum.

Átakið heitir Alveg sjálfsagt og hafa auglýsingar undir því slagorði verið keyrðar í miðlum í nokkra daga.

 

 

Í tilefni dagsins hefur ráðuneytið jafnframt skipulagt ráðstefnu um sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi til vitundarvakningar um mikilvægi sjálfboðaliðans. Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica og verður þar fjallað um störf sjálfboðaliða og áskoranir hjá þeim samtökum sem reiða sig á störf þeirra.

 

 

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að í heimsfaraldrinum kom mikilvægi íþrótta- og æskulýðsstarfs fyrir samfélagið allt berlega í ljós. Þegar við siglum út úr faraldrinum er mikilvægt að skoða hvort starf með sjálfboðaliðum hafi breyst og hvaða áskoranir eru fram undan. Íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi getur ekki átt sér stað í núverandi mynd án sjálfboðaliða sem sífellt gefa af sér í þágu heildarinnar.

Ráðstefnan stendur frá klukkan 12:00 – 15:30.

Þar verður m.a. fjallað um rannsóknir á sjálfboðaliðastarfinu, gildi sjálfboðaliðastarfs fyrir einstaklinga og samfélagið, nýliðun sjálfboðaliða, sjálfboðaliða á hlaupaviðburðum ÍBR, Símamótið í knattspyrnu og margt fleira.

Hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar. Við vekjum athygli á því að hún verður ekki í beinu streymi en tekin upp og upptökurnar gerðar aðgengilegar mjög fljótlega.

Meira um ráðstefnuna.