Tímamótasamningur við UMFÍ
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, skrifuðu á 50. sambandsþingi UMFÍ í dag undir samning um ríkisframlag til UMFÍ til næstu þriggja ára. Þetta er tímamótasamningur enda í fyrsta sinn sem stjórnvöld semja við félagasamtök í meira en eitt ár í senn.
Kristján Þór sagði í ávarpi sínu á þinginu að í farvatninu er að gera samninga við fleiri félagasamtök til þriggja ára í stað eins árs í senn. „Þetta gefur félögum færi á að skipuleggja sig til lengri tíma,“ sagði hann.
„Þessi samningur tryggir stöðugleika og gerir okkur kleift að skipuleggja starfið til lengri tíma. Við fögnum vinnubrögðum ráðherra og ráðuneytisins og höldum áfram að styðja íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land,“ sagði Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.
50. sambandsþing UMFÍ fór fram á Hótel Hallormsstað um helgina. Það er haldið á tveggja ára fresti og er það æðsta vald í málefnum UMFÍ. Um 150 gestir sátu þingið, fulltrúar sambandsaðila UMFÍ, stjórn UMFÍ og starfsfólk.
Kristján Þór og Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, voru sérstakir gestir þingsins ásamt fleiri þingmönnum norðaustur kjördæmis og sveitarstjórnarmönnum.