Tveir nýir framkvæmdastjórar aðildarfélaga UMFÍ
Hanna Carla Jóhansdóttir og Jónas Halldór Friðriksson hafa nýverið tekið við störfum sem framkvæmdastjórar hjá aðildarfélögum UMFÍ. Hanna Carla er nýr framkvæmdastjóri HK í Kópavogi en Jónas Halldór hjá Völsungi á Húsavík.
Hanna Carla Jóhannsdótir var ráðin framkvæmdastjóri HK á dögunum og tók hún við starfinu 1. september. Hún tók við starfinu af Birgi Bjarnasyni sem hafði setið í stóli framkvæmdastjóra í 13 ár. Birgir færði sig um set innan HK og gerðist fjármálastjóri félagsins.
Hanna Carla hefur nokkra reynslu af störfum fyrir HK. Hún hóf að þjálfa hjá HK árið 2008 og tók síðan við sem rekstrarstjóri knattspyrnu- og handknattleiksdeildar félagsins. Hún hefur jafnframt setið í stjórn barna- og unglingaráðs handknattleiksdeilda og aðalstjórn félagsins ásamt því að sitja í stjórn UMSK.
Jónas Halldór Friðriksson tók við starfi framkvæmdastjóra af Þorsteini Marinóssyni í júlí. Hann kannast við starfið enda vermdi Jónas sama sæti í rúm tvö ár eða frá vori 2014 og fram á haustið 2016.
Jónas er uppalinn Húsvíkingur og spilaði lengi með meistaraflokki Völsungs í knattspyrnu. Einnig hefur Jónas komið að þjálfun yngri flokka í handbolta og fótbolta hjá Völsungi.