Fara á efnissvæði
02. október 2024

Tveir nýir í hreyfingunni

Tveir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir hjá jafn mörgum félögum upp á síðkastið. Guðmundur G. Sigurbergsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi og Bjarki Eiríksson er nýr  framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Heklu, sambandssvæði þess nær yfir gamla Rangárvallahrepp.

Báðir hófu þeir störf í gær.

 

Meira um Guðmund

Guðmundur þekkir vel til í íþróttahreyfingunni, hann er m.a. gjaldkeri stjórnar UMFÍ og formaður stjórnar Ungmennasambands Kjalarnesþþings (UMSK). Þá hefur hann á síðustu árum starfað sem fjármálastjóri Endurvinnslunnar og fjármála- og rekstrarstjóri Samhjálpar.

Guðmundur tekur við starfinu af Guðmundi L. Gunnarssyni.

 

Meira um Bjarka

Bjarki er ráðinn í 50% starf hjá Ungmennafélaginu Heklu. Ráðningin er tímabundin út maí 2025 með möguleika á framlengingu.

Bjarki er stúdent af íþróttabraut Menntaskólans að Laugarvatni og leggur stund á nám í almannatengslum við Háskólann á Bifröst. Bjarki hefur undanfarin ár starfað mest við sölu og þjónustustörf. Samhliða störfum sínum hefur Bjarki tekið þátt í félagsmálum bæði innan og utan íþróttahreyfingarinnar. Bjarki er fæddur og uppalinn á Flúðum en er í dag búsettur á Hellu ásamt fjölskyldu sinni.