Fara á efnissvæði
29. október 2020

UÍA og íþróttafélagið Höttur fá Hvatningarverðlaun UMFÍ

Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) hlaut í dag hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir vel heppnað nýtt íþróttahús Íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum. Félagið byggði húsið í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Þetta er þúsund fermetra hús fyrir fimleika og frjálsar íþróttir.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, tilkynnti valið á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór í dag. Fundurinn fór í fyrsta sinn í sögu UMFÍ fram með rafrænum hætti með fjarfundarbúnaði Microsoft Teams. Um fimmtíu þingfulltrúar sambandsaðila UMFÍ um allt land tóku þátt í fundinum.

Það var Sprettur sporlangi, lukkudýr UÍA, sem afhenti Davíð Þór Sigurðarssyni, formanni Hattar, Hvatningarverðlaunin á Egilsstöðum. Sýnt var frá afhendingunni í beinni útsendingu á Teams.

 

Einstakt íþróttahús

Íþróttahúsið og framkvæmdin öll er eftirtektarverð. Húsið var reist með ódýrari hætti en önnur hús. Hið ótrúlega gerðist líka að bæði tímaáætlanir og kostnaðaráætlanir stóðust. Það heyrir til undantekninga.

Sjálfboðaliðar stýrðu verkinu og lögðu mikið á sig til að allt gengi eftir.

Íþróttahúsið á Egilsstöðum eru UÍA og Hetti til sóma og eiga þau Hvatningarverðlaunin svo sannarlega skilin.