Fara á efnissvæði
05. apríl 2019

UMFÍ auglýsir eftir mótshaldara fyrir Landsmót UMFÍ 50+ sumarið 2021

Landsmót UMFÍ 50+ hefur verið haldið víða um land frá árinu 2011. Það verður í Neskaupstað dagana 28. – 30. júní í sumar og í Borgarnesi sumarið 2020. Nú er komið að því að finna mótsstað árið 2021.

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og skemmtun þar sem fólk á besta aldri blómstrar í hreyfingu.

Mótið er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og þá sem eru eldri. Ekki er krafa um að þátttakendur eru skráðir í ungmenna- eða íþróttafélag. 

Landsmót UMFÍ 50+ er frábært tækifæri fyrir mótshaldara til að vekja athygli á lýðheilsu og möguleikunum í sveitarfélagi sínu. Gera verður ráð fyrir allt að 1.000 þátttakendum á mótinu frá öllu landinu.

„Landsmót UMFÍ 50+ skiptir máli fyrir fólk sem hefur bæði gaman af því að hreyfa sig og hitta aðra. Það er gaman að sjá fólk koma á mótið sem hefur ekki stundað íþróttir síðan í æsku og rifja upp hvað það var gaman að stunda íþróttir og hreyfa sig með öðrum. Á mótum UMFÍ verða til góðar minningar fyrir þátttakendur. Landsmót UMFÍ 50+ hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið og ætti það að skilja eftir sig uppbyggingu og þekkingu í sveitarfélaginu sem heldur mótið,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

 

Umsóknarfrestur er til 1. júní næstkomandi.

Umsóknareyðublað og ítarlegar upplýsingar um kröfur fyrir mótshaldara má nálgast hér:

Reglugerð um Landsmót 50+

Umsóknareyðublað

Vinnureglur um val á mótsstað

 

Nánari upplýsingar eru veittar í þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568 2929. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið umfi@umfi.is.