Fara á efnissvæði
28. apríl 2020

UMFÍ frestar tveimur mótum

Stjórn UMFÍ hefur ákveðið að fresta Landsmóti UMFÍ 50+ og Íþróttaveislu UMFÍ sem halda átti í júní í sumar. Nýjar dagsetningar verða tilkynntar um leið og þær liggja fyrir.

Landsmót UMFÍ 50+ átti að halda í Borgarnesi dagana 19. – 21. júní en Íþróttaveisla UMFÍ helgina eftir. Ekki liggur fyrir hvenær mótin verða haldin næsta sumar.

 

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, segir nauðsynlegt að fresta báðum mótunum til að tryggja öryggi þátttakenda.

„Þetta er auðvitað leiðinlegt því mikill fjöldi fólks hefur beðið með óþreyju eftir því að taka þátt í mótunum með fjölskyldum, vinum og vinnufélögum. Á Landsmóti UMFÍ 50+ hefur líka myndast skemmtileg stemning þar sem gamlir keppnautar hittast á ný undir öðrum formerkjum en áður. En við hjá UMFÍ höfum fylgst náið með þróun mála vegna áhrifa af COVID-19 vegna mótahalds sumarsins og verið í miklu og góðu sambandi við Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld vegna faraldursins. En í ljósi aðstæðna var ákveðið að fresta mótunum,‟ segir Ómar Bragi.

 

Unglingalandsmót UMFÍ enn á dagskrá

Unglingalandsmót UMFÍ er enn á dagskrá á Selfossi um verslunarmannahelgina. Ómar Bragi segir ákvörðun um mótið verða tekna í byrjun júní. „Það er enn nokkuð langt í mótið. Þessi veirufaraldur er mikið ólíkindafól og ekki hægt að gera áætlanir langt fram í tímann. Við ætlum því að halda allri vinnu við undirbúning mótsins áfram eins og mögulegt er í stöðunni með öllum þeim sjálfboðaliðum sem að því koma. Við erum auðvitað meðvituð um stöðuna og tökum skynsamlega ákvörðun þegar að því kemur,‟ segir hann.