Fara á efnissvæði
10. janúar 2022

UMFÍ greiðir út 40 milljónir króna

Íslensk getspá hefur ákveðið að greiða eigendum sínum 300 milljónir króna í aukagreiðslu vegna góðrar afkomu af lottóspili á síðasta ári. UMFÍ á 13,33% hlut í fyrirtækinu og fær í ljósi þess rétt tæpar 40 milljónir króna. Upphæðin rennur að langstærstum hluta til sambandsaðila UMFÍ og að hluta í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ en hvoru tveggja styður við grasrótarstarfið um allt land.

Stjórn UMFÍ hefur ákveðið að greiða sambandsaðilum hlut í arðgreiðslunni með aukagreiðslu 17. janúar næstkomandi. Greiðslan er viðbót við reglulegan stuðning UMFÍ við sambandsaðila.

Þetta er í annað sinn á jafn mörgum árum sem UMFÍ fær svo háa aukagreiðslu vegna afkomu Íslenskrar getspár. Sambandsaðilar UMFÍ nutu að sjálfsögðu góðs af því þá eins og nú.

Eigendur Íslenskrar getspár eru þrír. Það eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem á 46,67% hlut og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), sem á 40%. Eins og áður sagði á UMFÍ 13,33%.

Aukagreiðslan sýnir vel að í hvert sinn sem spilað er í Lottói þá styður viðkomandi við starf íþróttafélaga um allt land.