Fara á efnissvæði
21. mars 2023

UMFÍ hættir starfsemi Ungmennabúða á Laugarvatni

Stjórn Ungmennafélags Íslands hefur ákveðið að hætta starfsemi Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni. Nú vinnur starfsfólk UMFÍ að því að upplýsa skólastjórnendur um allt land um ákvörðunina.

Forsaga málsins er sú að starfsemi Ungmennabúðanna var lokað tímabundið um miðjan febrúar 2023 vegna myglu og rakaskemmda.

Í kjölfarið upplýsti Bláskógabyggð, sem eigandi húsnæðisins, UMFÍ, að sveitarfélagið hyggðist ekki fara í þær framkvæmdir á húsinu sem nauðsynlegar eru til að halda starfsemi áfram. Þess í stað opnaði sveitarfélagið á þann möguleika að UMFÍ myndi kaupa húsnæði Ungmennabúðanna af sveitarfélaginu og halda starfseminni áfram.  

Stjórn og stjórnendur UMFÍ hafa skoðað og metið framkvæmda- og kostnaðaráætlanir í tengslum við það til framtíðar. Það er hins vegar mat stjórnenda og stjórnar UMFÍ að áætlaður kostnaður við kaup og nauðsynlegar framkvæmdir á húsnæðinu sé af þeirri stærðargráðu að ekki er skynsamlegt fyrir UMFÍ að takast eitt á hendur slíka skuldbindingu.  

Stjórn UMFÍ þykir afar miður að þetta sé niðurstaðan og þar með tilneydd til að ljúka starfsemi Ungmennabúðanna á Laugarvatni.

Öllum þeim sem komið hafa að starfi Ungmennabúða UMFÍ í gegnum tíðina, kennurum, nemendum og öðrum gestum í gegnum árin vill UMFÍ þakka innilega fyrir ómetanlegt framlag. Við vonum að þær minningar sem starfsemi búðanna skilur eftir verði þátttakendum gott veganesti til framtíðar. 

 

Ungmennabúðir UMFÍ  

UMFÍ hefur starfrækt Ungmennabúðir frá árinu 2005 og frá árinu 2019 á Laugarvatni. Í búðirnar hafa komið þúsundir nemenda úr 9. bekk grunnskóla af öllu landinu með kennurum og umsjónarfólki og dvalið þar fimm daga í senn. Ungmennabúðirnar hafa verið í gömlu íþróttamiðstöðinni sem margir þekkja frá því íþróttakennaraskóli var á Laugarvatni. Markmiðið með dvöl í búðunum er að styrkja félagsfærni ungmennanna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt því að kenna þeim að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.  

UMFÍ rekur jafnframt Skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði og koma þangað nemendur 7. bekkjar úr grunnskólum af öllu landinu. 

 

Um UMFÍ

Ungmennafélag Íslands - er landssamband ungmennafélaga á Íslandi. Heiti þess er skammstafað UMFÍ. UMFÍ var stofnað í ágúst árið 1907. Sambandsaðilar UMFÍ eru 27 talsins sem skiptast í 22 íþróttahéruð og 5 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 480 félög innan UMFÍ, að langmestu leyti íþrótta- og ungmennafélög um allt land með með rúmlega 290 þúsund félagsmenn.