UMFÍ kannar umfang ofbeldis innan ungmennafélagshreyfingarinnar
Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) sendi í dag stjórnendum sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélögum þeirra ítarlegan spurningalista með það fyrir augum að kortleggja og greina umfang þeirra ofbeldisverka og áreitni sem lýst er undir myllumerkinu #metoo.
Fyrir síðustu helgi sendu íþróttakonur frá sér yfirlýsingu í tengslum við MeToo-umræðuna. Þar voru 62 frásagnir kvenna úr heimi íþróttanna. Þar var sagt frá kynferðislegu-, andlegu- og líkamlegu ofbeldi auk áreitni í garð kvennanna af hálfu karlmanna, íþróttamanna og fleiri innan íþróttahreyfingarinnar. Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 konur.
UMFÍ leggur sitt af mörkum
Íþróttakonurnar hafa kallað eftir breytingu og krafist þess að málið sé tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd, þjálfarar og aðrir innan íþróttaheimsins líti í eigin barm. Stjórnendur í ungmennafélagshreyfingunni tóku undir það á sambandsráðsfundi UMFÍ á laugardag. Á fundinum samþykktu stjórnendur innan ungmennafélagshreyfingarinnar að bregðast við og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn ofbeldi af hvaða toga sem er innan hreyfingarinnar.
Á meðal þess sem þátttakendur eru spurðir um er hvort viðkomandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á síðastliðnum 12 mánuðum, hvort viðkomandi hafi unnið að máli sem tengist kynbundinni áreitni, kynferðisbroti eða öðru ofbeldi og hvort þátttakandi viti um áætlun um viðbrögð við einelti og kynferðislegri áreitni innan síns félags.
Að síðustu eru þátttakendur spurðir að því hvort þeir hafi kynnt sér efni á heimasíðu UMFÍ varðandi einelti og ofbeldi.
Hefur þú gert það?
Stjarnan fær sakavottorð allra þjálfara
Hátterni í algjörri andstöðu við gildi ungmennafélagshreyfingarinnar