UMFÍ spennt fyrir verkefninu Allir með í Reykjanesbæ
„Við erum mjög spennt. Við höfum verið að fá niðurstöður í könnunum hjá okkur sem Rannsóknir og greining hefur unnið, að þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er lægra á þessu svæði en öðrum á landinu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í að breyta því til framtíðar,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Reykjanesbær, ráðgjafafyrirtækið Kvan og ungmenna- og íþróttafélögin í Keflavík og Njarðvík standa að verkefninu Allir með og styrkir Félagsmálaráðuneytið það.
Verkefnið er liður í verkefni Reykjanesbæjar að verða fjölskylduvænn bær. Þar er hugað sérstaklega að vellíðan barna, jákvæðum samskiptum þeirra og sterkri félagsfærni. Þetta er gert með áherslu á þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, því allt bendir til þess að samfélagsleg virkni leiði til betri líðan, jákvæðari samskipta, sterkari félagsfærni og þess að fólk sé hluti af samfélagsheildinni.
Í verkefninu er einblínt á alla en horft líka sérstaklega til þeirra sem reynist það meiri áskorun að taka þátt en öðrum. Lögð er sérstök áhersla á börn af erlendum uppruna og börn sem ekki eru nú þegar í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
Í verkefninu munu 6.000 einstaklingar, eða hátt í 30% íbúa Reykjanesbæjar, fá fræðslu, þjálfun og menntun í gegnum verkefnið frá um 60 mismunandi starfsstöðum sem koma að barnastarfi í sveitarfélaginu, sama hvort um sé að ræða danskennara, skátaforingja, barnaverndarstarfsmann eða stuðningsfulltrúa og allt þar á milli.
Víkurfréttir fjölluðu ítarlega um verkefnið þegar því var hleypt af stokkunum í Reykjaneshöllinni fyrir viku. Þar var rætt við þær Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur, verkefnastjóra fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ, og Auði Ingu um aðkomu UMFÍ að því enda eru Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag og Ungmennafélag Njarðvíkur sambandsaðilar UMFÍ. Félögin munu halda utan um fundi, fræðslu og þjálfun og kynna skipulagt tómstunda- og æskulýðsstarf fyrir öllum í sveitarfélaginu.
Auður segir verkefnið í anda kjarnastarfsemi UMFÍ, sem hvetji til þátttöku allra á eigin forsendum.
Auður segir verkefnið í anda kjarnastarfsemi UMFÍ, sem hvetji til þátttöku allra á eigin forsendum.
Hægt er að smella á myndina og spila viðtalið, sem hefst á mín 16:24.