Fara á efnissvæði
12. ágúst 2022

UMFÍ tekur við rekstri Skólabúðanna að Reykjum

„Þetta er ánægjulegur dagur. Við fögnum því að að náðst hafi samkomulag við UMFÍ og erum spennt fyrir samstarfinu,‟ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri Húnaþings vestra. Hún og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, skrifuðu í dag undir samning um rekstur Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði. UMFÍ tekur við rekstri Skólabúðanna frá og með komandi hausti.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra auglýsti í mars á þessu ári eftir samstarfsaðila um rekstur Skólabúðanna að Reykjum og sóttist UMFÍ eftir samstarfi við sveitarfélagið um rekstur þeirra.

 

Börn af öllum landinu á Reykjum

Í umboði Húnaþings vestra mun UMFÍ annast rekstur skólabúðanna en um 3.200 grunnskólabörn af öllu landinu sækja búðirnar á hverju skólaári. Í rekstrarsamningi kemur m.a. fram að í skólabúðunum sé unnið eftir Heimsmarkmiðum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá grunnskóla. Sérstök áhersla er lögð á uppeldis- og félagsleg markmið. Í skólabúðunum eru nemendur einnig kynntir fyrir sögu og atvinnuháttum á landsbyggðinni með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

Þetta er eitt af síðustu embættisverkum Ragnheiðar Jónu sem lætur af störfum sem sveitarstjóri síðar í mánuðinum. Hún er ánægð með daginn því á sama tíma og undirritunin fór fram braust sólin fram úr skýjunum eftir rigningu og leiðindaveður vikum saman.

„Skólabúðirnar á Reykjum byggja á mjög góðum grunni og þeim orðstír sem byggður hefur verið upp af fráfarandi rekstraraðilum síðastliðin 20 ár. Sveitarélagið þakkar fráfarandi rekstaraðilum farsælt samstarf og óskum við þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.” segir Ragnheiður Jóna.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra býður UMFÍ hjartanlega velkomið í Hrútafjörðinn með óskum um ánægjulegt og farsælt samstarf.  Vonir standa til að undir dyggri stjórn UMFÍ muni starfsemi Skólabúðanna að Reykjum blómstra í fagurri náttúru Hrútafjarðarins og þeirri sögu sem firðinum fylgir.

 

Tímamót hjá UMFÍ

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, er sömuleiðis ánægð eftir undirritunina.

„Þetta eru tímamót hjá okkur í UMFÍ. Í Skólabúðunum að Reykjum munum við halda áfram með óformlegt nám eins og við gerum í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Starfsemin verður að mestu með óbreyttu sniði en okkar góðu áherslur UMFÍ og gildi sem fela í sér gleði, þátttöku og samvinnu verður í forgrunni þar sem ungmennafélagsandinn verður leiðarljósið,‟ segir hún.

Á myndinni hér að ofan má sjá þær Ragnheiði Jónu og Auði Ingu ásamt Sigurði Guðmundssyni, forstöðumanni Ungmennabúða UMFÍ. Hér að neðan má sjá að heilmikil vinna stendur nú yfir við endurnýjun húsnæðisins í Skólabúðunum að Reykjum.