UMSB hlaut Fyrirmyndarbikar Unglingalandsmóts UMFÍ
Unglingalandsmóti UMFÍ var slitið í gærkvöldi, rétt fyrir miðnætti 5. ágúst. Fjöldi mótsgesta safnaðist saman á Þorlákshafnarvelli að lokinni síðustu kvöldvöku mótsins til að fylgjast með mótsslitum. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði í ávarpi sínu við mótsslit mótið hafa tekist afar vel og hafi hann heyrt það sama frá mótsgestum sem hann hafi hitt um helgina. Þá þakkaði hann sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf. Að því loknu var þjóðsöngurinn sunginn og heljarinnar flugeldasýning til að slaufa mótinu.
Hefð er fyrir því að afhenda einum sambandsaðila UMFÍ Fyrirmyndarbikar sem efur sýnt framkomu til fyrirmyndar jafn innan sem utan keppni. Meðal annars er horf til inngöngu keppnisliða og stuðningsfólks við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ, framkoma liðsfélaga og fylgdarliðs, háttvísi öll og stemning fjölskyldna á tjaldsvæðinu.
Fyrirmyndarbikarinn var afhentur í fyrsta sinn á fyrsta Unglingalandsmóti UMFÍ árið 1992.
Bikarinn að þessu sinni hlaut Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB). Brutust út mikil fagnaðarlæti á íþróttavellinum þegar formaður UMFÍ tilkynnti niðurstöðu nefndarinnar sem velur hver á bikarinn skilið. Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB, og félagar UMSB hlupu inn á völlinn undir dynjandi lófataki og tóku við bikarnum.