UMSB innleiðir verkfærakistu Sýnum karakter
Framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar er hæstánægður með viðtökur við fræðslufundi um verkefnið Sýnum karakter á dögunum. Hann sér fyrir sér að verkefnið hafi jákvæð áhrif á iðkendur í öllum deildum aðildarfélaganna og að þeir muni notfæra sér það í daglegum störfum í framtíðinni.
„Það er mikilvægt að þjálfarar og aðrir sem vinna með krökkum og unglingum séu með leiðarvísi að góðu starfi sem gangi í gegnum allt félagið. Við það verða sömu gildi og skilaboð alls staðar, óháð því í hvaða grein og flokki iðkandi er,“ segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB).
Hann stóð fyrir fræðslukvöldi í lok nóvember síðastliðins í framhaldi af því að ákveðið hefur verið að innleiða verkfærakistu verkefnisins Sýnum karakter í starf UMSB. Nokkur félög hafa þegar innleitt verkfærakistu Sýnum karakter í starfi sínu en að mismiklu leyti.
Á fræðslukvöld UMSB komu stjórnendur aðildarfélaga og hlýddu á erindi fyrirlesara um ýmsar hliðar verkefnisins. Þar á meðal voru þær Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ, ásamt körfuboltaþjálfaranum Pálmari Ragnarssyni, sem hefur slegið í gegn sem fyrirlesari um jákvæð samskipti og haldið marga fyrirlestra á viðburð um Sýnum karakter.
Verkfæri sem nýtist í lífinu
Sigurður segir viðtökurnar hafa verið alveg frábærar og ljóst að margir hafi áhuga á verkefninu. „Kvöldið tókst afar vel. Fjöldi fólks mætti og verkefnið fékk mikla athygli. Það þarf að vekja athygli og láta bera á því í stað þess að innleiða það í rólegheitum.
Á viðburðinn mættu stjórnarmenn í UMSB og aðildarfélögum, þjálfarar, foreldrar, ömmur og afar og iðkendur sömuleiðis. Þess vegna áttuðu sig fleiri á verkefninu, kostum þess og út á hvað Sýnum karakter gengur. Nú vita það allir og þá verður verkfærakistan eins og gæðahandbók sem hægt verður að vinna með,“ segir Sigurður og bendir á að nú þegar vinni margir þjálfarar með eitt og annað úr verkfærakistu Sýnum karakter. Það sé ómeðvitað. Núna, þegar búið sé að kynna verkefnið í öllum deildum UMSB og kynna fyrir þjálfurum, iðkendum og foreldrum út á hvað það gangi, átti sig fleiri á kostum þess og hvaða leiðir eigi að fara. Þá séu líka fleiri reiðubúnir til að leggja meira af mörkum, bæði til félagsstarfsins og í þjálfun.
Sigurður segir skólastjórnendur hafa komið á fræðslufundinn og strax séð flöt á að nota verkfærin í skólum sínum. „Það var gaman að sjá íþróttakennara og skólastjóra sem geta hugsað sér að nýta verkefnið. Það snýst nefnilega að mörgu leyti um áhugahvöt, markmiðasetningu og fleira í lífinu en íþróttir.“
„Fólk sankar í starfi sínu að sér mörgum hugmyndum um þjálfun og leiðir af ýmsu tagi, en veit ekki að það er í anda Sýnum karakter. Í fyrirlestrunum komu fram ýmis ráð, sem þjálfararnir okkar eru strax farnir að nýta sér,“ segir Sigurður og bætir við að það skipti máli að fá sem flesta innan UMSB í liðið svo að það virki sem ein heild.
„Þetta var fyrsti fasi. Við ætlum að halda áfram með verkefnið og næsti hittingur fyrir þjálfara verður eftir áramótin. Þá munum við fara yfir efnið á www.synumkarakter.is, skoða hvernig við getum nýtt það í starfinu og fá hugmyndir hjá þjálfurum. Eftir það munum við funda með stjórnarmönnum deilda og félaga UMSB og að lokum innleiða starfsdaga tvisvar á önn þar sem þjálfarar setjast niður og ræða sín á milli. Hlutverk okkar sem héraðssambands er að styðja við aðildarfélög og þjálfara og koma fram með nýjungar. Það á þó alltaf að vera í samvinnu við þá sem vinna á gólfinu, stjórn og starfsfólk. Þess vegna er nauðsynlegt að halda stöðu- og fræðslufundi og heyra hjá þeim í hvaða átt þeim finnst að við eigum að stefna,” segir Sigurður.
En hverju vonar Sigurður að Sýnum karakter skili UMSB?
„Ég held að þetta skili okkur betri iðkendum, hvort sem þeir verða afreksfólk eða ekki, og að þessi færni skili okkur betra fólki út í samfélagið. Ef vel tekst til fá krakkarnir sjálfstraust í íþróttunum og geta unnið með það áfram. Ef við fáum enn betri einstaklinga út úr þessu af því að þjálfararnir eru meðvitaðir um það hvernig þeir eiga að laða þá fram, hefur okkur tekist verkið,“ segir Sigurður Guðmundsson hjá UMSB.
Greinin birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þetta er 4. tbl. ársins 2018. Blaðið allt er hægt að nálgast hér: