Fara á efnissvæði
12. apríl 2022

UMSE 100 ára um helgina

„Það er ekki öllum félögum gefið að ná þetta mörgum árum í starfi. Það gerist aðeins þar sem sjálfboðaliðarnir búa yfir eldmóði og hugsjónum til að styrkja samfélag sitt í sameiningu og snúa bökum saman til að svo megi verða. Samvinnan og samstaðan er sterkt og mikilvægt afl,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann var viðstaddur afmælishátíð Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) sem haldin var laugardaginn 9. apríl síðastliðinn. Þar afhenti hann Sigurði Eiríkssyni, formanni UMSE, afmælisskjöld frá UMFÍ í tilefni dagsins.

Fram kemur á heimasíðu UMSE að sambandið var sstofnað á skrifstofu Kaupfélags Eyfirðinga 8. apríl 1922. Að stofnunni stóðu tólf félög úr Eyjafirði. Nú eru aðildarfélög UMSE fjórtán talsins í fimm sveitarfélögum. Innan þessara félaga er fjölbreytt starf jafnt fyrir unga sem aldna. Skíði, sund, knattspyrna, blak, frisbí-golf, frjálsíþróttir, akstursíþróttir, golf, körfuknattleikur og margt fleira.

Í tilefni aldarafmælisins hefur verið gefin út saga UMSE í máli og myndum. Þetta var gríðarlega stórt og viðamikið verk sem Óskar Þór Halldórson tók að sér að ritstýra. Fjölbreytt starf skreytir söguna og þar má nefna íþróttir, leiklist, skógrækt, sumarbúðir og lengi mætti áfram telja.

Sögu UMSE má nálgast hér á rafrænu formi: Saga UMSE

 

 

Þá segir á heimasíðu UMSE í tengslum við afmælið að saga UMSE sé merkileg, sérstaklega í kringum félagsmál og hún tengd frumkvöðlastarfi. M.a. var Unglingalandsmót UMFÍ, sem er að mörgum talin skautfjöðurin í starfi UMFÍ, stofnað og fyrst haldið af UMSE, á Dalvík 1992. Þar var mikið hugsjónarfólk sem tók á skarið.

 

Unglingalandsmótið er risastórt

Í ávarpi sínu ræddi Jóhann Steinar jafnframt um Unglingalandsmót UMFÍ, sameiningu íþróttafélaga í nálægum sveitarfélögum og fleiri mál.

Hann sagði:

„Við hjá UMFÍ – og reyndar ekki bara við heldur miklu fleiri - stöndum í mikilli þakkarskuld við UMSE. Hér varð nefnilega til eitt af stærstu og þekktustu verkefnum okkar – verkefni, sem byggir á framsækinni hugmynd og síðar varð að Unglingalandsmóti UMFÍ, sem velflestir landsmenn þekkja. Hugmyndin varð upphaflega til árið 1991; hún byggði á því að halda mót með krökkum úr fleiri en einni íþróttagrein, gefa öllum tækifæri til að taka þátt á eigin forsendum og njóta lífsins innan og utan vallar með fjölskyldu og vinum. Í mjög stuttu máli er viðburðurinn eitthvað fyrir alla og það er nákvæmlega það sem ungmennafélagshreyfingin vill standa fyrir. 

Grunnhugmynd mótsins hefur í raun ekki mikið breyst frá því það var fyrst haldið á Dalvík árið 1992, á 70 ára afmæli UMSE. Vissulega hefur sumt breyst í takt við tíðarandann. Teknar hafa verið inn greinar sem eru framandlegar og öðruvísi og má þar nefna kökuskreytingar, dorg og sandkastalagerð, sem allt hefur notið mikilla vinsælda, enda fá allir að prófa og vera með.

Nú í ár verður unglingalandsmótið haldið á Selfossi, um verslunarmannahelgina eins og venja er, og vil ég nota tækifærið og hvetja alla til að mæta og taka þátt. Margir hafa vitnað um það að þeir hafi hlotið sína eldskírn á unglingalandsmóti og að þar hafi verið lagður grunnur að frekari ástundun og keppni og ekki síst vináttu. Lykillinn að farsælu lífi er að efla mannlega eiginleika og þora að þroskast, og það kallar vissulega á ásetning og kjark. Unglingalandsmótin eru kjörinn vettvangur til þess að taka þar fyrstu sporin og rækta og efla þá eðlisþætti.

Á síðasta þingi UMSE var samþykkt að skoða sameiningu íþróttafélaga í nálægum sveitarfélögum. Það þarf kjarkmikið fólk til að taka slíkar ákvarðanir og þær geta styrkt íþróttastarfið. Ég vil hvetja forystufólk í hreyfingunni til þess að taka þá umræðu og óska ykkur velfarnaðar í þeim viðræðum.

Við hjá UMFÍ styðjum við starf sambandsaðila okkar og hvetjum aðildarfélög þeirra til þess að takast á við verkefni samtímans og horfa til framtíðar með gleðina að leiðarljósi. Tækifærin liggja í samstarfi og samvinnu sem er leiðin til árangurs og nýjunga. Þessi nálgun endurspeglast og kristallast í ungmennafélagsandanum, en hann felur í sér að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið.

UMSE er sterkur sambandsaðili ungmennafélagshreyfingarinnar, sem leggur áherslu á að sinna þörfum samfélagsins á sínu sviði. Það hefur áhrif út á við og hvetur aðra til dáða. Starf UMSE er sannarlega til heilla á félagssvæði sínu og er vissulega styrkur máttarstólpi í starfi UMFÍ.

Til hamingju með tímamótin kæru félagar og góðar stundir!“