UMSK gaf hverfafélögum fótboltavelli
Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) gaf í dag hverfafélögum innan sambandsins pannavelli til afnota. Þetta eru litlir átthyrndir fótboltavellir þar sem leikið er einn á móti einum. Vellirnir voru afhentir stjórn og stjórnendum aðildarfélaga UMSK í Fífunni hjá Breiðabliki í Kópavogi í dag.
Magnús Gíslason, varaformaður UMSK, sagði aðdraganda þessa þá að stjórn og sambandsaðilar Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) hafi farið til Álaborgar í Danmörku í fyrra til að sjá hvernig Danir halda landsmót.
„Þar sáu menn nokkrar nýjar keppnisgreinar sem þarf að kynna hér á landi,“ sagði hann og nefndi að UMSK ætli að kynna nýjar greinar til sögunnar. Þar á meðal er fótbolti á pannavelli.
„Þetta er gjöf til ykkar en þið getið skipst á að lána vellina hvert til annars,“ bætti hann við. Vellirnir eru merktir UMSK og viðkomandi hverfafélagi. Félögin geta selt auglýsingar á þær og geta skipst á að lána vellina hvert til annars.
UMFÍ á jafnframt fjóra velli sem verða notaðir á Landsmótinu á Sauðárkróki og Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn í sumar.
Innan UMSK eru ein af stærstu ungmenna- og íþróttafélögum höfuðborgarsvæðisins. Þar á meðal eru HK í Kópavogi, Breiðablik, Afturelding í Mosfellsbæ, Stjarnan í Garðabæ og Grótta á Seltjarnarnesi. Fulltrúar flestra þeirra voru viðstödd viðburðinn í Fífunni í dag.