Fara á efnissvæði
17. apríl 2020

UMSS er 110 ára í dag

„Þetta eru skrýtnir tímar. Við ætluðum að hafa veglegt ársþing í apríl, bjóða upp á þriggja rétta veislu með ljúffengu kjöti úr Skagafirði fyrir hátt í 90 manns, þingfulltrúa, gesti og fleiri. Þetta átti að vera stórt þing, það hundraðasta að viðbættu afmælinu. En ætli við gerum nokkuð fyrr en í haust,‟ segir Klara Helgadóttir, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS).

UMSS var stofnað 17. apríl árið 1910 og fagnar því 110 ára afmæli í dag. Bráðabirgðastjórn hafði þó setið frá 20. febrúar sama ár sem boðaði til stofnfundar 17. apríl. Stofnfélög voru Ungmennafélagið Æskan Staðarhreppi, Ungmennafélagið Framför Lýtingsstaðahreppi og Ungmennafélagið Fram Seyluhreppi. Þegar líða tók á öldina fjölgaði aðildarfélögunum og starfsemin efldist á allan hátt. Aðildarfélagin eru nú 10 talsins í Skagafirði.

 

Stefnt var á að halda ársþing UMSS 7. apríl síðastliðinn. Gert var ráð fyrir 69 þingfulltrúum auk gesta, stjórnar og starfsmanna. Leitað hefur verið gamalla mynda frá viðburðum UMSS í gegnum árin til að sýna á þinginu og margt fleira.

 

 

Samkomubann til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar sem sett var á í mars setti hins vegar strik í reikninginn og var þinginu frestað um óákveðinn tíma. Síðasta þing sem sambandsaðili UMFÍ hélt var hjá UMSB 12. mars síðastliðinn og var þeim sem á eftir komu slegið á frest.

 

Þing líklega ekki fyrr en í haust

Klara segir lítið í gangi nú enda liggir allt íþróttastarf niðri. Sjálf er hún bóndi að Syðri-Hofdölum í Skagafirði og hefur í nægu að snúast fram að sumarlokum.

„Við skoðum þetta síðar, í sveitinni er vorið ekki besti tíminn til að halda þing og varla tími til þess aftur fyrr en í haust,‟ segir hún og býst við að þá fari fólk að hugsa sér til hreyfings. Þangað til verði þingið undirbúið og verði það veglegt.

UMSS er einn 28 sambandsaðila UMFÍ. Innan UMFÍ eru 18 héraðssambönd, 3 íþróttabandalög og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 460 félög innan UMFÍ með rúmlega 300 þúsund félagsmenn.