Fara á efnissvæði
07. júlí 2023

Umtalsverðar endurbætur á vefsíðu UMFÍ

Umtalsverðar endurbætur á vefsíðu UMFÍ

UMFÍ hefur tekið í gagnið nýja útgáfu af vefsíðunni umfi.is. Það er fyrirtækið Vettvangur sem bjó síðuna til og séð um gerð nýju útgáfunnar í samstarfi við UMFÍ.

Vefsíðan er uppfærð í nýjasta vefumhverfi Umbraco. Nýjungarnar í síðunni eru helstar þær að viðmót í síma er mun betra en áður. Þá hafa boðleiðir verið styttar verulega og gerðar skýrari, búið er að fjölga flýtileiðum umtalsvert og eiga notendur síðunnar því að vera fljótari nú að finna þær upplýsingar sem þeir leita eftir.

Vefsíðan er eins og ætíð prýdd fjölda ljósmynda frá viðburðum UMFÍ.

„Þessu verkefni er aldrei lokið enda er það markmið okkar að veita sambandsaðilum UMFÍ góða þjónustu og vinnum alltaf að því að gera betur,“ segir Ragnheiður Sigurðardóttir, verkefnastjóri UMFÍ sem vann að stórum hluta með starfsfólki Vettvangs að verkefninu.

Framundan er að auka rafræna vegferð UMFÍ, gera rafrænt umsóknarferli í gegnum vefsíðuna, koma myndasafni UMFÍ betur á framfæri og færa allt í sem mestum mæli á rafrænt form.

„Við eigum að vera nútímaleg og umhverfisvæn og þurfum að standa okkur í því. Fólk á sem dæmi ekki að þurfa að hala niður PDF-skjölum og prenta þau út heldur á það að geta lesið það á vefsíðunni. Við erum samt alltaf opin fyrir öllu því sem má fara betur og hvetjum því sambandsaðila til að hafa samband ef þeir sjá eitthvað sem mætti vera skýrara, er ekki rétt og svo má lengi telja,“ segir hún.

Á myndinni hér að ofan má sjá Einar Þorvald Eyjólfsson, fjármálastjóra UMFÍ, Brynjólf Gunnarsson, vefhönnuð hjá Vettvangi, Iðunni Bragadóttur, bókara UMFÍ, Ragnheiði Sigurðardóttur frá UMFÍ, Elmar Gunnarsson, stofnanda og einn ráðgjafa Vettvangs sem fylgi breytingum UMFÍ alla leið, Jón Kári Eldon, hönnuður hjá Vettvangi, Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og að lokum Björgvin Jónsson, ráðgjafi í upplýsingatækni sem vinnur fyrir UMFÍ.