Unglingalandsmót UMFÍ er stærsta forvarnarverkefni landsins
„Það særir mig að sjá fyrirmyndir barna okkar sýna af sér neikvæða hegðun. Við eigum að gera þá kröfum að fyrirmyndir barna okkar sýni af sér æskilega hegðun,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.
Haukur hélt ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Foreldrar sem fyrirmyndir barna voru honum hugleikið efni, sérstaklega þegar kemur að þeim sem mikilvægum hlekk í forvarnarstarfi, sem sé alltumlykjandi í starfi UMFÍ.
„Það er ekki einkamál hvers og eins að vera fyrirmynd. Við eigum að gera þá kröfu að fyrirmyndir barna okkar sýni af sér æskilega hegðun. Í stað óheilbrigðra fyrirmynda sem við höfum enga stjórn á þurfum við að finna jákvæðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og styrkja þau til að snúa baki við óheilbrigðum stjörnum,“ sagði hann og lagði áherslu á forvarnargildi Unglingalandsmóta UMFÍ.
„Það er sérstaklega gaman að sjá ykkur hér því Unglingalandsmót UMFÍ er eitt af stærstu og mikilvægustu forvarnarverkefnum á Íslandi. Forvarnir og bætt lýðheilsa eru eilífðarverkefni sem á að verka virkt allan ársins hring. Það er alltumlykjandi í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. Sýnt hefur verið fram á að heilbrigð samvera foreldra og barna er besta forvörnin enda skilar það sér í því að halda unglingum lengur frá öllum þeim vímuefnum sem í boði eru. Hvert heilbrigt ár án þess að umgangast slík efni er sigur bæði fyrir börn og foreldra,“ sagði hann.
Takk sjálfboðaliðar
Haukur þakkaði jafnframt öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem vinnur við Unglingalandsmótið á Höfn í Hornafirði.
„Það eru þeir sem hjálpa okkur að gera mótið að veruleika. Sjálfboðaliðarnir eru út um allt. Þeir eru í hlutverkum dómara, starfsfólks á keppnissvæðum, á tjaldsvæðum, á þjónustusvæðum og víðar. Höfum þetta í huga og virðum og þökkum þeirra framlag.“
Næstu Unglingalandsmót
Haukur sagði í lok ræðu sinna búið að ákveða hvar næstu Unglingalandsmót UMFÍ verði allt til ársins 2022.
Unglingalandsmót UMFÍ árið 2020 verður Selfossi, árið 2021 fer það fram á Sauðárkróki og árið 2022 í Borgarnesi. Uppskar Haukur mikið lófaklapp úr röðum Borgfirðinga þegar hann flutti fréttirnar að staðsetningu mótsins árið 2022.
Ávarp Hauk í heild sinni:
Forseti Íslands, velferðar- og barnamálaráðherra, bæjarstjóri ogg bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins Hornafjörður, fulltrúi ÍSÍ, USÚ, þátttakendur og gestir.
Verið velkomin á 22. Unglingalandsmót UMFÍ.
Það er gaman að sjá þessa góðu mætingu hér á mótið. Það er alveg ljóst að „þótt fjarlægðin geri fjöllin blá og langt til Húsavíkur“, eins og segir í textanum, þá virðist ekki svo langt til Hornafjarðar í allra augum.
Það er sérstaklega gaman að sjá ykkur hér því Unglingalandsmót UMFÍ er eitt af stærstu og mikilvægustu forvarnarverkefnum á Íslandi. Forvarnir og bætt lýðheilsa eru eilífðarverkefni sem á að verka virkt allan ársins hring. Það er alltumlykjandi í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. Sýnt hefur verið fram á að heilbrigð samvera foreldra og barna er besta forvörnin enda skilar það sér í því að halda unglingum lengur frá öllum þeim vímuefnum sem í boði eru. Hvert heilbrigt ár án þess að umgangast slík efni er sigur bæði fyrir börn og foreldra.
Við erum fyrirmyndir. Foreldrar eru fyrirmyndir barnanna í flestum tilvikum og þurfa þau að standa undir væntingum. Við hjá UMFÍ höfum spurt ungt fólk sem sækir ungmennaráðstefnur UMFÍ á hverju ári hverjar fyrirmyndir þeirra eru. Flestir svara því til að foreldrarnir eru fyrirmyndir þátttakenda og aðrir úr nærumhverfi þeirra. Við verðum semsagt að standa okkur.
En svo eru aðrar fyrirmyndir í augum barnanna okkar. Þær eru ekki bara í íþróttum heldur af ýmsum toga og á ýmsum sviðum, fjarlægari fyrirmyndir sem unglingar sjá aldrei og komast ekki í návígi við. Það særir mig að sjá fyrirmyndir barna okkar sýna af sér neikvæða hegðun. Ekki aðeins fjarlægar stjörnur heldur líka okkur sjálf, foreldrana. Allt hefur áhrif á börnin okkar. Við getum alltaf staðið okkur betur. Það er ekki einkamál hvers og eins að vera fyrirmynd. Við eigum að gera þá kröfu að fyrirmyndir barna okkar sýni af sér æskilega hegðun. Í stað óheilbrigðra fyrirmynda sem við höfum enga sjtórn á þurfum við að finna jákvæðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og styrkja þau til að snúa baki við óheilbrigðum stjörnum.
En fleira er ofarlega í umræðunni í nútímanum en forvarnir. Umhverfismálin eru fyrirferðamikil. Og það er ekki af tilefnislausu. Æ fleiri eru að verða meðvitaðri um umhverfið, við finnum bókstaflega fyrir því á eigin skinni. Við sem heild, íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin, getum lagt ýmislegt af mörkum þegar kemur að þeim málefnum. Þetta þurfa ekki að vera stór skref. Mörg lítil gera saman gagn.
Hér á Höfn getum vð tekið þátt í umhverfisbyltingunni, gengið vel um þau svæði sem við erum á, notað ruslafötur, ekið bílum okkar eins lítið og hægt er um helgina og gengið eða hjólað á milli staða.
Ég hvet líka þátttakendur til að vera kurteisa og umgangast aðra af virðingu.
Ég vil sérstaklega að sjálfboðaliðarnir hér á Höfn verði settir á stall. Það eru þeir sem hjálpa okkur að gera mótið að veruleika. Sjálfboðaliðarnir eru út um allt. Þeir eru í hlutverkum dómara, starfsfólks á keppnissvæðum, á tjaldsvæðum, á þjónustusvæðum og víðar. Höfum þetta í huga og virðum og þökkum þeirra framlag.
Takk sjálfboðaliðar.
Ég vil, fyrir hönd UMFÍ, færa Ungmennasambandinu Úlfljóti og Sveitarfélaginu Hornafirði bestu þakkir fyrir samvinnuna við undirbúning og framkvæmd mótsins.
Næsta Unglingalandsmót UMFÍ, það 23. Fer fram á Selfossi í Árborg árið 2020, árið 2021 fer 24. Unglingalandsmótið fram á Sauðárkróki og árið 2022 fer 25. Unglingalandsmót UMFÍ fram í Borgarnesi.
En nú beinum við athyglinni að mótinu hér. Ég vona vona að gleði verði innan sem utan valla alla mótsdagana og að allir fari sáttir heim.
Ég segi 22. Unglingalandsmót UMFÍ sett.
Gangi ykkur vel og góða skemmtun.
Nokkrar myndir frá setningu Unglingalandsmótsins