Fara á efnissvæði
31. júlí 2018

Unglingalandsmót UMFÍ setur svip sinn á Þorlákshöfn

Nú er heldur betur farið að styttast í Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn. Búið er að setja upp fánaborgir víða um bæinn með fánum UMFÍ og styrktaraðila mótsins. Í gær kom svo heil hersing af sjálfboðaliðum á mótssvæðið og lauk við að setja upp tjaldið stóra þar sem kvöldvökur fara fram. Kvöldvökurnar verða daglega og stígur þar á stokk þekktasta tónlistarfólk landsins. 

Fjörið hefst strax í tjaldinu fimmtudaginn 2. ágúst þegar plötusnúðurinn DJ Dóra Júlía kemur fram. Á föstudaginn spila svo Between Mountains, Joey Christ og Flóni. Laugardaginn 4. ágúst koma fram Míó Tríó, Jói P. og Króli og Emmsjé Gauti. Lokakvöldið er á sunnudaginn 5. ágúst en þá koma fram Young Karin, Herra Hnetusmjör og Kóp Bois, Joe Frazier, Huginn og DJ Egill Spegill) og Jón Jónsson. Að þeim tónleikum loknum verður Unglingalandsmóti UMFÍ slitið og flott flugeldasýning. 

Þjónustumiðstöðin í tengslum við mótið opnar fimmtudaginn 2. ágúst klukkan 15:00 og geta þátttakendur sem skráðir eru á mótið náð þar í öll þau gögn sem þarf fyrir mótið. Þjónustumiðstöðin, sem er í grunnskóla Þorlákshafnar, er opin til klukkan 23:00 á fimmtudagskvöld og mun svo opna aftur klukkan 9:00 alla hina dagana. 

Keppni í ýmsum greinum hefst föstudaginn 3. ágúst af fullum krafti klukkan 9:00 með körfubolta, golfi og knattspyrnu. Meira en 20 greinar eru í boði fyrir börn og ungmenni á aldrinum 11-18 ára. Nóg er líka í boði fyrir aðra í fjölskyldu þátttakenda. Fótboltamót eru fyrir 5-7 ára, 8-10 ára og sundleikar fyrir 10 ára og yngri og margt fleira alla helgina. Til viðbótar eru frjálsíþróttaleikar barna, leikjatorg á svæðinu, fótboltamót fyrir alla fjölskylduna og margt fleira.

Þrátt fyrir langa upptalningu er þetta aðeins brot af öllu því sem í boði er fyrir alla fjölskylduna á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Velkomin á Unglingalandsmót!