Fara á efnissvæði
04. desember 2019

Unglingalandsmótið er frábærasta forvörnin

„Þetta er einhver frábærasta forvörn sem fundin hefur verið upp. Fólki gefst kostur á að koma með börnum sínum og allir hafa eitthvað við að vera. Mér finnst þetta skrautfjöðrin í starfi UMFÍ,“ segir Guðríður Aadnegard, formaður HSK, í samtali við Morgunblaðið í dag um Unglingalandsmót UMFÍ. Mótið  verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og sveitarfélagið Árborg. 

Fólk á Suðurlandi kann að halda stóra viðburði enda hafa stórmót UMFÍ nokkrum sinnum verið haldin þar. Síðast var Landsmót UMFÍ haldið á Selfossi árið 2013 og Unglingalandsmót ári fyrr. Landsmót UMFÍ 50+ var haldið í Hveragerði árið 2017 og Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina 2018. Bæði voru þau því á starfssvæði HSK.

Guðríður segir Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi verða með hefðbundnu sniði og leitað fanga til að gera allri fjölskyldunni kleift að vera með, bæði yngri systkinum þátttakenda og fullorðnum.

Mótið er að mótast, að sögn Guðríðar. Til stendur að vera með skógarhlaup sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í og taka rafíþróttir inn í það í meiri mæli.

Aðstaða til mótahalds er góð á Selfossi, segir Guðríður. 

„Magnað er að halda svona stór mót á þessu svæði. Aðstaðan er frábær og mér skilst að frekar verði bætt í á næstu árum,“ segir hún.

 

Meiri upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ

Myndir frá Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um síðustu verslunarmannahelgi