Fara á efnissvæði
22. desember 2020

Ungmenna- og íþróttafélög styrkja Seyðfirðinga

Ungmenna- og íþróttafélög um allt land hafa hugsað vel til Seyðfirðinga síðan aurskriður ollu gríðarlegu tjóni í bænum. Ungmennafélagið Einherji á Vopnafirði ætlar að gefa Björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði og Rauða krossinum í bænum samtals 200.000 krónur. Þetta er andvirði af uppboði á bókinni, 64 Degrees North, sem er handbók á ensku um íslenska knattspyrnu.

 

 

Höfundur bókarinnar er Skotinn Marc Boal, sem hefur fylgst með íslenskri knattspyrnu frá miðjum níunda áratug síðustu aldar eða frá því hann spilaði á sínum yngri árum gegn íslenskum liðum sem komu yfir til Skotlands að spila. Bókin er sú fyrsta sem komið hefur út á ensku um íslenska knattspyrnu, landsliðið, deildarliðin, ágrip af sögu íslenskrar knattspyrnu og velli víða um land.

„Boal hafði samband við mig á föstudag, gaf okkur fimm árituð eintök af bókinni og vildi að andvirðið myndi renna til Seyðfirðinga. Hann vonaði að við myndum selja eintökin á kostnaðarvirði og við gætum gefið 15.000 krónur til Seyðfirðinga. En við höfðum uppboð á bókinni og auðvitað vildu menn eignast hana þegar markmiðið var að styrkja gott málefni,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði meistaraflokks Einherja í knattspyrnu á Vopnafirði og tengiliður bókahöfundarins.

 

Óhefðbundið uppboð

Bjartur skelli í færslu á Facebook-síðu Einherja þar sem uppboðinu og reglum þess var lýst. Þar sagði að uppboðið stæði yfir helgina og lyki því á sunnudagskvöld klukkan 10. Hægt var að bjóða í bækurnar í athugasemdum á Facebook, með því að svara færslum á Twitter eða hafa samband við Bjart.

Boltinn rúllaði hratt og þegar á hólminn var komið var barist um eintökin fimm. Maður sem vildi ekki láta nafn síns getið bauð 100.000 krónur í eintak, annar keypti bók á 50.000 krónur. Ein fór á 20.000 krónur og tvær á 15.000 hvor.

 

 

Bækurnar koma svo úr prentun 8. janúar 2021 og verða þær afhentar eins fljótt og hægt er.

 

Hugur allra hjá Seyðfirðingum

Með gjöfinni bætist Ungmennafélagið Einherji í hóp fjölda ungmenna- og íþróttafélaga sem hafa styrkt Seyðfirðinga með ýmsu móti síðan hörmungarnar dundu yfir. Meistaraflokkar í knattspyrnu hafa gefið sektarsjóði sína. Leiknir á Fáskrúðsfirði reið á vaðið og sagði frá því á Twitter. Dalvík/Reynir fylgdi á eftir og svo koll af kolli.

Bjartur segir Einherja ekki hafa átt neinn sektarsjóð og því hafi bókagjöfin komið sér afar vel ekki síður en undirtektirnar við uppboðinu.