Fara á efnissvæði
10. júlí 2019

Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ flytja sumarið 2019

​Haustið 2019 verður ár nýrra skrefa og breytinga hjá Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ. Leigusamningur UMFÍ og Dalabyggðar vegna starfsemi Lauga í Sælingsdal rann út í lok maí 2019. UMFÍ hefur gengið frá samningi við sveitarstjórn Bláskógabyggðar um húsnæði í íþróttamiðstöð gamla Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ hafa því flutt starfsemi sína þangað og er von á fyrsta skólahópnum 26. ágúst nk.


Á Laugarvatni er öll aðstaða í göngufæri. Heimavistin er við íþróttahúsið og stutt að fara á milli. Húsakostur á Laugarvatni er í góðu ásigkomulagi og er unnið að því að gera allt klárt fyrir næsta vetur.

Fyrirkomulagið verður svipað á Laugarvatni og á Laugum. Unnið verður útfrá sömu hugmyndafræði en þó mun starfsemin aðlagast þeim aðstæðum sem Laugarvatn býður upp á og þar eru fjölmörg tækifæri sem verið er að greina og vinna með þessa dagana.

Aðsókn í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ hefur aukist mikið síðustu ár enda vinsælt að komast í heilbrigða hvíld þar sem m.a. farsímar og tölvur trufla ekki nemendur. Vinsældir búðanna hafa valdið því að skólastjórnendur geta ekki alltaf valið dvalartíma fyrir nemendur eins og áður. Fyrirhyggja er því best og æskilegt að þeir sem vilja tryggja pláss hafi samband fyrr en seinna. Við munum að sjálfsögðu reyna að uppfylla óskir allra.

Í samræmi við þetta verður breyting á fyrirkomulagi bókana í Ungmennabúðunum í framtíðinni. Reikna má með að það verði ákveðin umsóknarfrestur á vorönn fyrir dvöl komandi starfsvetur.

Til að byrja með verður forgangsröðunin sú að þeir sem hafa sótt um dvöl vegna skólaársins 2019-2020 fyrir 22. febrúar næstkomandi verður svarað í marsÞeir sem hafa samband eftir 23. febrúar raðast á þær vikur sem eftir verða.

Vinsamlegast notið rafræna umsókn Ungmennabúðanna sem er að finna HÉR
 
Nánari upplýsingar veita: 
Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðumaður Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ, í síma 861-2660
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, í síma 861-8990