Fara á efnissvæði
06. febrúar 2018

Ungmennabúðir í Sælingsdal opnar til maíloka 2019

Anna Margrét Tómasdóttir er forstöðukona Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ á Laugum í Sælingsdal. Húsnæðið var selt í byrjun árs. UMFÍ er með samning um starfsemi búðanna til loka maí 2019.

„Fólk stoppar mig úti á götu til að spyrja hvort við ætlum að starfa áfram. Síminn stoppar ekki heldur. Ég segi þeim alltaf það sama, að við erum ekki að fara að hætta því reksturinn er tryggður út maí 2019,“ segir Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðukona Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ á Laugum í Sælingsdal.

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti á dögunum 460 milljóna króna kauptilboð einkahlutafélagsins Arnarlóns í ferðaþjónustuþorpið Laugar í Sælingsdal. UMFÍ hefur starfrækt Ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum síðan árið 2005 og hefur Anna Margrét unnið þar frá upphafi.

Í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ koma nemendur í 9. bekk grunnskóla og dvelja í eina viku í senn. Í búðunum er lögð áhersla á útiveru og félagsfærni.

Vinsældir búðanna hafa aukist ár frá ári og er nú svo komið að framundan er ansi annasöm vorönn. Aldrei hafa fleiri nemendur átt bókað í búðunum og nú.

„Það koma nemendur frá 53 skólum víðsvegar að frá landinu til okkar eða um 2000 nemendur. Sex nýir skólar hafa bæst við á milli ára,“ segir Anna Margrét og bætir við að allt sé á fullu. „Lífið að Laugum er dásamlegt, fjörugt og frísklegt og nóg að gera.“

 

Lengi á dagskrá að selja Laugar

Stefnt hefur verið að sölu Lauga um árabil eða frá því því sveitarstjórn Dalabyggðar keypti fasteignirnar af ríkinu árið 2013. Gert hefur verið ráð fyrir sölunni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2016-2019. Á Laugum er íþróttaaðstaða grunnskólabarna í Búðardal og er horft til þess að byggja hana upp í bænum.

Fram kemur í Fréttablaðinu að kaupandinn að Laugum er félagið Arnarlón. Félagið er í eigu Þórhalls Arnar Hinrikssonar, stjórnarformanns ALM verðbréfa og fyrrverandi knattspyrnumanns. Hann ætlar að efla hótelreksturinn sem nú er opinn í þrjá mánuði á ári.

Tilboðið felur í sér kaup á jörðinni Laugum í Sælingsdal, jarðhitaréttindum, tjaldsvæði, 20 herbergja hóteli og öðrum fasteignum, þar á meðal heimavistinni sem er með 26 herbergjum, íþróttamiðstöð og 25 metra langri sundlaug. 

Laugar eru í grunninn gamall grunnskóli með heimavist og fyrir 17 árum var elsta hluta hans breytt í hótel. Sveitarfélagið auglýsti það til sölu í september 2016 en það keypti fasteignirnar af ríkinu árið 2013.

 

Allt um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ