Ungmennafélagið Fjölnir vinnur með UMFÍ og ÍSÍ að því að útiloka ofbeldi
Aðalstjórn Ungmennafélagsins Fjölnis ákvað á fundi sínum 18. janúar 2018 að lýsa yfir vilja félagsins sem stærsta íþrótta- og ungmennafélag landsins, til samstarfs við ÍSÍ, UMFÍ og ráðuneyti íþróttamála við að tryggja sem best ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla.
Ályktun aðalstjórnar Fjölnis þessa efnis var send til UMFÍ, ÍSÍ og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í dag.
Í ályktuninni segir að aðalstjórn Fjölnis fagni þeirri umræðu og viðbrögðum sem #MeToo umræðan hefur leitt af sér og dáist af hugrekki þeirra einstaklinga sem stigið hafa fram fyrir skjöldu til að opinbera svo alvarleg vandamál. Að sama skapi vottar stjórnin öllum fórnarlömbum ofbeldis samúð sína.
Heilbrigð sál í hraustum líkama er leiðarljós Fjölnis í öllum verkum sínum.
Undir ályktunina rita þeir Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, og Guðmundur L. Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, fyrir hönd aðalstjórnar Ungmennafélagsins Fjölnis.