Fara á efnissvæði
18. september 2017

Ungmennafélagið Þróttur: Vaxtarverkir fylgja stækkun félags

Marteinn Ægisson er framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Þróttar. Félagið starfar í Vogum og var stofnað 23. október árið 1932. Það fagnar 85 ára afmæli í haust. Félagið hefur stækkað síðustu árin en stækkun fylgja vaxtarverkir sem stjórn félagsins hefur unnið á.

Hvað er að frétta?

Það er allt gott að frétta úr Vogum. Helstu áskoranir í rekstri félagsins? Að vera réttum megin við núllið, fjölga sjálfboðaliðum og bjóða upp á faglegt starf fyrir alla iðkendur og aðra félagsmenn. Félagið hefur stækkað hratt síðustu árin og því fylgja ný vandamál sem er góður lærdómur til að efla félagið.

Hvað gerðuð þið til að laga reksturinn þegar þörf var á því?

Við vorum í fjárhagsvandræðum 2015. Æfingagjöldin voru hækkuð um 20% og við fórum í mikla vinnu við að fjölga styrktaraðilum.

Hver var árangurinn?

Fjárhagsstaða félagsins lagaðist og við höfum getað staðið við allar skuldbindingar okkar. Þrátt fyrir hækkun æfingagjalda fjölgaði iðkendum á sama tíma. Við höfum einnig fengið mjög hæfa þjálfara inn í félagið og það hefur bætt starfið. Reksturinn er þó enn viðkvæmur og má lítið bregða út af svo að fari í fyrra horf.

Eitthvað að lokum?

Það hefur verið mikill kraftur í sundinu síðustu árin og við erum að leita að sundþjálfara fyrir veturinn sem er tilbúinn að halda áfram því góða starfi sem hefur verið í gangi og teikna upp framtíðina með okkur. Ef einhver les þetta og getur aðstoðað er hægt að senda okkur tölvupóst á netfangið throttur@throttur.net eða hringja beint í mig síma 892-6789.

Félagið í hnotskurn


• Iðkendur eru í kringum 150.

• Félagið býður upp á knattspyrnu, júdó og sund. Félagið heldur líka úti leiklistarnámi og íþróttaskóla.

• Flestir æfa knattspyrnu. Veruleg fjölgun hefur verið í öðrum greinum.

Marteinn Ægisson hóf störf sem framkvæmdastjóri Þróttar 2. maí 2015. Hafði hann áður prófað flest störf hjá félaginu. Hann var formaður knattspyrnudeildar árum saman. Þá þjálfaði hann yngri flokka í átta ár, hafði setið í aðalstjórn félagsins og tekið að sér fjölmörg verkefni fyrir Þrótt án þess að vera stjórnarmaður eða starfsmaður.


Greinin birtist í 3. tbl. Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að smella hér og lesa blaðið allt.