Ungmennaráð bætir samfélagið
Rúmlega sextíu ungmenni sitja árlegu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem hófst á Hotel Borealis að Efri-Brú í Grímsnes- og Grafningshreppi í dag, fimmtudaginn 22. mars.
Yfirskrift ráðstefnunnar er Okkar skoðun skiptir máli!
Möguleikar ungs fólks eru endalausir
Kolbrún Lára Kjartansdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ, setti ráðstefnuna og ræddi um áhrif þess að sitja í ungmennaráði á líf sitt og hvernig hún hafi þroskast mikið við að taka þátt í starfi þess.
„Ég vona innilega að það sem þið lærið hér í dag muni hafa áhrif. Möguleikarnir eru endalausir, þið getið skrifað pistla, boðað fundi og haft skuggakosningar. Stór skref hafa verið stigin,“ sagði Kolbrún Lára og benti á að eitt af baráttumálum Ungmennaráðs UMFÍ og verið rætt á fyrri ráðstefnun er lækkun kosningaaldurs í sveitarstjórnarkosningum. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, sem tók þátt í ráðstefnunni í fyrra, mælti fyrir lækkun kosningaaldurs á Alþingi og er málið komið í gegnum 2. umræðu. Verði stuðningur fyrir lækkun kosningaaldurs getur farið svo að 16 ára ungmenni geti kosið í sveitarstjórnarkosningum.
„Við verðum að nýta röddina til að láta í okkur heyra,“ sagði Kolbrún Lára.
Ungmennaráð bætir samfélagið
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, steig í pontu á eftir Kolbrúnu Láru. Hún benti á að nú hafi ráðstefnan verið haldin í næstum tíu ára og megi segja að hún sé að slíta barnsskónum.
Auður Inga sagði ungmennaráð mikilvægt. Auðvelt sé að festast í áskorunum dagsins. Ef horft sé á starf ungmennaráðsins í stærra samhengi sjái að mikið hefur breyst síðan fyrsta ungmennaráðstefnan var haldin á vegum Ungmennaráðs UMFÍ árið 2009.
Þá sagði Auður Inga starf Ungmennaráðs UMFÍ fara saman við hlutverk og gildi UMFÍ: „Hlutverk UMFÍ er að skapa aðstæður og tækifæri. Það er ekki endilega málefnið sem er í aðalhlutverki heldur formið. Þessi ráðstefna fer vel saman á við gildi UMFÍ um að taka þátt og bæta samfélagið,“ sagði hún og benti eins og Kolbrún Lára á að frumvarp um lækkun kosningaaldurs sé dæmi um áhrif af sameinuðum kröftum ungmenna í ungmennaráðum.
Skylda að taka þátt í samfélaginu
Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála, var gestur ráðstefnunnar. Hann rak ekki minni til að hafa komið að Efri-Brú í starfi sínu sem dýralæknir áður en hann varð þingmaður.
Helsta atriðið í máli Sigurðar Inga var skylda fólks í lýðræðislegu samfélagi. „Hvaða fólk er það sem er til í að leggja á sig svo mikla vinnu sem fyrirfram er ekki skemmtileg. Stundum er hundleiðinlegt í pólitík og mann langar til að gera eitthvað allt annað, til dæmis að vera dýralæknir. En drifkrafturinn er að hafa áhrif. En það er líka skylda fólks sem samfélagsþegn að taka þátt. Það er mikið af skyldum sem eru hluti af því að búa til samfélag,“ sagði hann og benti þvínæst á að endurnýjun skipti alla máli, ekki aðeins fyrir stjórnmálaflokka heldur margt fleira í samfélaginu,“ sagði hann og mælti með því að leitað verði til ungmennaráða eftir ráðgjöf um málefni ungs fólks. Það eigi við bæði um stjórnendur sveitarfélaga, Umboðsmann barna og fleiri.
„Við þurfum að vera tilbúin til að fara í baráttuna“
„Fullorðna fólkið tekur ákvörðun fyrir okkur sem það hefur ekki hundsvit á. Við þurfum að hafa trú á okkur. Ef við gerum það ekki þá hafa það ekki aðrir. Og við þurfum að vera tilbúin til að fara í baráttuna,“ segir Sveinn Ægir Birgisson. Hann situr í ungmennaráði UMFÍ, ungmennaráði Árborgar og ungmennaráði sambands sunnlenskra sveitarfélaga, flutti erindi um ungmennaráðið og þátttöku sína í ráðinu.
Hann sagði mikilvægt að ungt fólk láti rödd sína heyrast og hafi kjark til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.
Sveinn lýsti því að 18 ára hafi hann ætlað að gefa kost á sér í hverfaráð á Selfossi. Hann hafi óvænt verið kosinn formaður ráðsins. Það kom honum á óvart. „Ég var formaður yfir fullorðnu fólki,“ sagði hann og sagðist oft rekast á veggi.
Sjálfstæði ungs fólks til skoðanamótunar sagði hann líka mikilvæga. „Foreldrar barna þurfa að passa sig á því að lita barnið ekki of mikið af skoðunum sínum. Það er ekki heilbrigt ef barn ákveður að halda með Chelsea af því að pabbi þess gerir það,“ sagði hann og lagði áherslu á að pólitík og fótbolti séu reyndar ekki sambærileg, það megi nefnilega skipta um skoðun og flokka í pólitík.
Sveinn lýsti því jafnframt hvað sveitarfélög og fleiri sem vilji stofna ungmennaráð þurfi að gera og fór yfir handbók Ungmennaráðs Árborgar um ungmennaráð sem þykir til fyrirmyndar.
Það mikilvægasta sem ungmennaráð þurfa að vita, sagði Sveinn Ægir vera: „Ungmennaráðið þarf að vita hvers er ætlast til af þeim“.