Fara á efnissvæði
17. apríl 2023

Ungmennaráð UMFÍ fundaði með Lilju

Fulltrúar Ungmennaráðs UMFÍ funduðu með Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, í húsakynnum Alþingis í síðustu viku. Fundarefnið var fyrirspurn Lilju til Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um störf ungmennaráða. Fyrirspurnin vakti athygli Ungmennaráðs UMFÍ sem hafði samband við Lilju.

Lilja Rannveig er mikil fyrirmynd í Ungmennaráði UMFÍ. Hún þekkir vel til starfa ráðsins, sat í því og skipulagði m.a. ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði þegar hún fór fram í Borgarnesi árið 2019. Skömmu eftir ráðstefnuna fór hún á þing og var gestur ráðstefnunnar á Laugarvatni á síðasta ári.

Lilja Rannveig tók á móti gestum Ungmennaráðsins í Alþingishúsinu og leiddi þau um húsið, sem var svo til mannlaust enda þingmenn margir enn í páskaleyfi frá hefðbundnum störfum þingsins. Hún gaf sér tíma til að setjast niður og svara spurningum um eitt og annað sem sneri að þeim svörum sem hún fékk frá ráðherra.

Ungmennaráð UMFÍ er jafnframt að leggja grunn að viðburðinum samtal ungmennaráða en þar er ætlunin að fulltrúar ungmennaráða af öllu landinu komi saman til að ræða málin.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Lilju Rannveigu ásamt þeim Erni Daða Arnbergz, Söru J. Geirsdóttur, Kolbeini Þorsteinssyni, Emblu Líf Hallsdóttur, formanni Ungmennaráðs UMFÍ, og Ragnheiði Sigurðardóttur, starfsmanni ungmennaráðsins og verkefnastjóra UMFÍ. Halla Margrét Jónsdóttir og Eiður Andri Guðlausson tóku þátt í gegnum tæknina - þau eru saman í símanum. 

 

Fleiri myndir frá heimsókninni