Fara á efnissvæði
15. maí 2024

Ungmennaráð UMFÍ verðlaunað

Uppskeruhátíð evrópskra samstarfsverkefna fór fram í Kolaportinu í Reykjavík miðvikudaginn 11. maí síðastliðinn og var hátíðin haldin í tilefni af 30 ára afmæli EES-samstarfsins. 

Hátíðin var skipulögð af Rannís, Utanríkisráðuneytinu, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og sendinefnd ESB á Íslandi.

Mörg hundruð gestir sóttu hátíðina í Kolaportinu og kynntu sér árangur yfir 40 samstarfsverkefna milli Íslands og Evrópusambandsins á síðastliðnum 30 árum. Auk fulltrúa fyrirtækja og stofnana voru ýmis sendiráð Evrópuríkja með bása í afmælinu og buðu gestum og gangandi upp á gómsætar kræsingar og upplýsingar um löndin, matarmenningu þar og þau verkefni sem unnin eru með fólki á Íslandi. 

Gæðaviðurkenning til Ungmennaráðs UMFÍ

Ungmennaráð UMFÍ var með kynningarbás á hátíðinni þar sem ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði var kynnt fyrir gestum og gangandi.

Ráðstefnan leggur áherslu á að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks í leik og starfi. Áhersla er lögð á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl.

Ráðstefnan hefur farið fram árlega frá árinu 2009 um allt land með mismunandi yfirskriftum. Á hátíðinni hlaut Ungmennaráð UMFÍ gæðaviðurkenningu fyrir ráðstefnuna og þykir hún ein af fyrirmyndarverkefnum Erasmus+. 

Ungt fólk og lýðheilsa 2024

Ungmennaráð UMFÍ hefur hafið undirbúning fyrir ráðstefnuna nú í ár. Hún fer fram dagana 20. - 22. september á Reykjum í Hrútafirði. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ungt fólk og lýðheilsa.

Á ráðstefnunni verður fjallað um ýmsa þætti heilsu, þ.e. líkamlega-, andlega- og félagslega heilsu. Að auki verður boðið upp á hellings hópefli, samveru, uppörvandi og hvetjandi vinnustofur og samtal við ráðafólk. Allt ungt fólk á aldrinum 15 - 30 ára getur skráð sig til leiks. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn í ár er að finna hér.