Ungmennaráðstefnu frestað
Ákveðið hefur verið að fresta ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði fram yfir áramótin 2022 vegna heimsfaraldurs COVID-19.
Til stóð að halda ráðstefnuna dagana 15. – 17. september í Héraðsskólanum á Laugarvatni.
„Við skynjum það af jafnöldum okkar að ekki er stemning fyrir því að blanda saman ungu fólki alls staðar af landinu undir eitt þak. Við teljum þess vegna skynsamlegast í stöðunni að fresta viðburðinum og taka þannig þátt í því að hemja útbreiðslu faraldursins,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson formaður ungmennaráðs UMFÍ.
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði leggur áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl.
Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.
Hér er að finna myndbönd og ályktanir frá fyrri ráðstefnum.