Fara á efnissvæði
20. nóvember 2017

Ungmennasamband Kjalarnesþings fagnar 95 ára afmæli

Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) fagnaði 95 ára afmæli í gær. Blásið var til afmælisboðs í íþróttamiðstöðinni í Laugardal í morgun og boðið upp á marsipanköku í tilefni dagsins. Valdimar Leó Friðriksson, formaður UMSK, hélt stutta tölu í boðinu og rifjaði upp sögu UMSK.

Fjögur félög stóðu að stofnun UMSK. Það voru Ungmennafélagið Drengur í Kjós (stofnað 1915), Ungmennafélagið Afturelding (stofnað 1909), Ungmennafélag Reykjavíkur (stofnað 1906 en lagt niður 1960) og Ungmennafélag Miðnesings í Sandgerði  (lagt af þegar Ksf. Reynir var stofnað árið 1935).

Stofnþing UMSK var haldið í Reykjavík 19. nóvember árið 1922.

Sagnfræðingurinn Jón M. Ívarsson hefur ritað um fyrstu 40 árin í sögu UMSK og er hún aðgengileg á vefsíðu UMSK. Valdimar sagði stefnt að því að skrifa það sem út af stendur á næstu fimm árum og hafa söguna fullkláraða á 100 ára afmælinu.

Saga UMSK

Aðildarfélög UMSK eru 49 talsins. Þar á meðal er Breiðablik og HK í Kópavogi, Stjarnan í Garðabæ, Afturelding í Mosfellsbæ, Íþróttafélagið Gerpla, Golfklúbbur Mosfellsbæjar, Golfklúbburinn Oddi í Garðabæ, Skotíþróttafélag Kópavogs og mörg, mörg fleiri. Félagsmenn eru meira en 70.000 talsins. 

 

Myndir

Á myndinni hér að ofan má sjá þá Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóra UMSK, ásamt Helga Gunnarssyni, Valdimar Leó og Birgi Ara Hilmarssyni. Þeir Helgi og Birgir eru báðir fyrrverandi framkvæmdastjórar UMSK. 

Á myndinni hér að neðan má sjá þá Guðmund Sigurbergsson, Lárus B. Lárusson og Magnús Gíslason, stjórnarmenn í UMSK. Þeir eru jafnframt í stjórnum aðildarfélaga UMSK. Guðmundur og Lárus eru einnig í stjórn UMFÍ (Ungmennafélags Íslands).