Fara á efnissvæði
02. september 2020

Ungt fólk og lýðræði í einn dag í september

Allt er þegar þrennt er!

Þessi blessaði faraldur hefur valdið því að breyta hefur þurft viðburðum hingað og þangað. Ungmennaráð UMFÍ hefur ekki farið varhluta af því. Nú í þriðja sinni hefur verið ákveðið að breyta ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Í stað þess að þetta verði þriggja daga viðburður þá mun ráðstefnan aðeins verða í einn góðan dag í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu.

Ráðstefnan verður samkvæmt þessu fimmtudaginn 17. september á milli kl. 09:00 – 16:00 í Silfurbergi.

Að sjálfsögðu verður fylgt öllum sóttvarnarreglum en svo verður líka hver og einn að passa upp á sig og aðra.

Dagskráin verður að sjálfsögðu áfram með fjölbreyttu sniði. Kynningar, málstofur, samtal við ráðamenn og önnur skemmtilegheit sem við í Ungmennaráði UMFÍ skipuleggjum.  

Takmarkaður fjöldi

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og er unnið með regluna fyrstur kemur, fyrstur fær. Ungmennaráð UMFÍ hvetur því þátttakendur um að bíða ekki með að skrá sig. Þátttökugjald er 5.900 kr. fyrir hvern þátttakanda. Innifalið í gjaldinu eru ráðstefnugögn og veitingar á Kolabrautinni, veitingastað Hörpunnar.

UMFÍ styrkir 80% af ferðakostnaði.

Athygli er vakin á því að viðburðurinn er með öllu vímuefnalaus og á það líka við um rafsígarettur.

Skráning á ráðstefnuna er til föstudagsins 11. september nk.  Smelltu hér til þess að skrá.

 

 

Dagskrá ráðstefnunnar

Kl. 09:00 Móttaka þátttakenda. Dönsum okkur í gang!

Kl. 09:30 – 10:00 Setning ráðstefnu

Kl. 10:10 – 10:40 Betri í dag en í gær - Beggi Ólafs, sálfræðingur og fyrirlesari.

Kl. 10:45 – 11:15 Jákvæður og neikvæður leiðtogi - Jón Halldórsson, KVAN.

Kl. 11:15 – 11:30 Skipting upp í umræðuhópa - Hvar, hvenær og hvernig hefur ungt fólk áhrif?

Kl. 11:30 – 12:30 Umræður í vinnustofum - Hvar, hvenær og hvernig hefur ungt fólk áhrif?

Kl. 12:30 – 13:30 Hádegismatur

Kl. 13:30 – 14:15 Umræður í vinnustofum - Hvar, hvenær og hvernig hefur ungt fólk áhrif? - Undirbúningur fyrir spjall við ráðamenn.

Kl. 14:15 – 14:45 Kaffi, vatn og annað jömmí!

Kl. 14:45 – 15:45 Kaffihúsaspjall við ráðamenn

Kl. 15:45 – 16:00 Hvað höfum við lært? Örsamantekt á viðburðinum.

 

Hvað er Ungt fólk og lýðræði?

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Lýðræðisleg áhrif - Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? 

Ráðstefnan er samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og gefa okkur, ungu fólki, verkfæri og þjálfun til þess að auka áhrif í okkar nær samfélagi.