Fara á efnissvæði
17. maí 2019

Unified íþróttir styrkja samband beggja íþróttamanna

„Unified-íþróttir, þar sem fatlaðir og ófatlaðir æfa og keppa saman, eru það sem koma skal í minni byggðarlögum,“ segir Jónas Sigursteinsson, íþróttakennari og þjálfari þeirra Þorsteins Goða Einarsson og Guðmundar Kristinsson Jónassonar frá íþróttafélaginu Ívari í Bolungarvík. Hann fór með þeim utan þegar þeir kepptu í badminton á Special Olympícs í Abu Dhabí. Þorsteinn er fatlaður en Guðmundur ófatlaður.

Iðkendur þurrfa að vera jafningjar

Jónas segir Íþróttafélagið Ívar ekki hafa boðið upp á sameiginlegar æfingar fatlaðra og ófatlaðra. Það hafi hins vegar þróast á skemmtilegan hátt.

„Fyrir um einu og hálfu ári fékk ég til mín strák sem vantaði íþrótt til að stunda. Við erum lítið félag og hann gat ekki æft fótbolta. Badminton hentaði honum mjög vel. Fljótlega bættust fleiri í hópinn. Sonur minn líka og skólafélagar hans fylgdu á eftir. Þeir æfa orðið tvisvar í viku og á laugardögum bætast aðrir úr fjölskyldum þeirra við í hópinn. Eftir þetta ákváðum við að opna æfingarnar fyrir alla,“ segir hann.

En hvaða áhrif hefur þetta á börnin sjálf og hvaða áhrif hefur þetta á önnur börn í félaginu?

Jónas segir ekkert endanlegt svar við þessari spurningu.

„Þegar kemur að unified-íþróttum þá þurfa iðkendur að vera jafningjar, bæði nálægt hvor öðrum í aldri og getu. Ég held í raun að þetta fyrirkomulag styrki báða íþróttamennina. Guðmundur hefur lært mikið á því að æfa með Þorsteini, það styrkir samband þeirra og þeir eru orðnir ágætis félagar,“ segir Jónas Sigursteinsson.

 

Viðtalið er í nýjasta tölublað Skinfaxa. Þar er lengri umfjöllun um íþróttir fatlaðra og heimsleikana. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér:

Skinfaxi 1. tbl. 2018

Eldri tölublöð Skinfaxa